Frumsýningu sjöttu kvikmyndarinnar um Harry Potter var í gær seinkað um átta mánuði, eða þar til í júlí á næsta ári, að því er kvikmyndaverið Warner Bros greindi frá. Kynningar á myndinni í kvikmyndahúsum hófust í síðustu viku.
Áætlað var að myndin yrði frumsýnd í nóvember, en framkvæmdastjóri Warner segir að ákvörðun um frestunina hafi verið tekin til að styrkja framboð versins á myndum næsta sumar.
Aðsókn að kvikmyndahúsum er mikil á sumrin, og fá kvikmyndaverin í Hollywood allt að 40% af árstekjum sínum af sumarvertíðinni.