Á annan tug manna hefur haft samband við myndlistarmanninn Snorra Ásmundsson vegna auglýsingar þar sem hann óskaði eftir því að fá að nota jarðneskar leifar fólks í myndbandsverk. Nokkrir hinna áhugasömu eru dauðvona.
Friðbjörn E. Garðarsson hdl., lögfræðingur Snorra, segir lagalega hlið málsins í sjálfu sér ekki svo flókna. Snorri leitaði til hans varðandi hana.
Friðbjörn segir bestu leiðina líklega þá að viðkomandi lýsi yfir, í votta viðurvist, að vilji hans sé að Snorri noti líkama hans eftir dauðann í tiltekna listsköpun. Yfirlýsing þessa eðlis, um hinsta vilja, verði undirrituð og vottarnir staðfesti andlegt hæfi og heilsufar viðkomandi. Í texta yfirlýsingarinnar yrði tekið fram hvað ætti að gera við líkið og jafnvel enn mikilvægara að fram kæmi hvað ekki mætti gera við það.
„Þetta vekur fyrst og fremst siðferðilegar spurningar. Það er nú bara einu sinni þannig, í allri lögfræði, að það er gengið mjög langt í að verða við hinsta vilja manna.“
Friðbjörn bendir á að eftir eigi að koma í ljós hverjum hinna áhugasömu sé alvara. „Honum er fúlasta alvara,“ segir hann um Snorra.