Hinn goðsagnakenndi Don LaFontaine er látinn, 68 ára að aldri. Lesendur þekkja kannski ekki nafnið né andlitið, en þeir sem heyra rödd hans vita um leið hver maðurinn er, enda hefur hann lesið inn á yfir 5000 bíómyndastiklur og um 350.000 auglýsingar.
Frægasta lína hans var án efa „In a world ...“ sem er fyrir löngu orðin klassísk klisja, stolin og stæld af mörgum, meðal annars grínistanum Pablo Fransisco, sem hefur náð heimfrægð fyrir það eitt að stæla rödd hans í uppistandi.(„One man, one ...“).
LaFontaine var opinber talsetningarrödd Paramount-kvikmyndaversins á seinni hluta áttunda áratugarins, áður en hann gerðist sjálfstætt starfandi. Meðal mynda sem hann hefur talsett sýnishornin úr eru: Fatal Attraction, Terminator I og II, Batman Returns, Dr. Strangelove, The Godfather, Simpsons, The Movie og fjöldi annarra.
Hans uppáhaldsbíómyndastikla var fyrir Fílamanninn, en Don lagði sig allan fram, sama hvort um stóra, litla, góða eða vonda mynd var að ræða.
Um Don var meðal annars sagt: „Þegar þú deyrð, þá er það ekki rödd Dons sem þú heyrir, heldur Guðs, að reyna að hljóma eins og Don.“
Rödd hans þótti voldug, hrjúf og ógnvekjandi og sagði Don sjálfur að ef hann notaði röddina á almannafæri yrði eflaust kallað á lögguna.
Með talsetningarferilinn til hliðsjónar virðist um svívirðilega kaldhæðni örlaganna að ræða þegar horft er til dánarmeins Dons, en hann kafnaði þegar lungu hans féllu saman.