Portrettmynd af Paris Hilton sem búin er til úr úrklippum úr klámblöðum verður bráðlega til sýnis í Lazarides-galleríinu í London á sýningu sem ber nafnið The Outsiders. Listamaðurinn sem gerði myndina heitir Jonathan Yeo og hefur hann áður gert svipaðar myndir af George Bush. Kollegi Yeo, Damien Hirst, hefur keypt verkið, en verðið fékkst ekki upp gefið. Listamaðurinn ætlar að selja eftirprentanir af verkinu og hefur boðist til þess að láta ágóðann af þeirri sölu renna til fyrirsætunnar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hilton verður listamönnum innblástur í myndlistinni, því Daniel Edwards gerði skúlptúr af henni þar sem hún var látin í bílslysi vegna ölvunaraksturs og vildi hann með því vara við hættunni sem fylgir því að aka undir áhrifum áfengis.