Ein af þekktustu leikkonum Suður-Kóreu, Ok So-ri, hefur fengið átta mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa haldið framhjá eiginmanni sínum.
Áður hafði leikkonan reynt að fá stjórnlagadómstól landsins til að ógilda ströng lög sem kveða á um að framhjáhald sé glæpur sem varði allt að tveggja ára fangelsi. Dómstóllinn hafnaði þeirri röksemd konunnar að lögin væru brot á mannréttindum.
Á ári hverju eru yfir þúsund manns ákærð fyrir framhjáhald í Suður-Kóreu og þótt það varði allt að tveggja ára fangelsi eru dómarnir yfirleitt skilorðsbundnir, þannig að fæstir þurfa að sitja inni fyrir þetta lögbrot.
Ok So-ri, sem er fertug, játaði framhjáhaldið eftir að fyrrverandi eiginmaður hennar kærði hana. Ástmaður konunnar, landsþekktur poppsöngvari, fékk hálfs árs skilorðsbundinn fangelsisdóm.
Lögunum hefur fjórum sinnum verið skotið til stjórnlagadómstólsins en hann hefur alltaf úrskurðað að framhjáhald skaði samfélagsskipanina og eigi því að varða við hegningarlög.
Í könnun, sem gerð var í fyrra, kom fram að 68% karlmanna og 12% kvenna í Suður-Kóreu viðurkenna að þau hafi drýgt hór.