Söngvakeppni Sjónvarpsins 2009 hefst í Sjónvarpinu á laugardagskvöldið kemur. Fjögur lög keppa í hverjum þætti og komast tvö lög áfram úr hverjum þeirra, alls átta lög, en áhorfendur kjósa lögin með símakosningu.
Laugardagskvöldið 7. febrúar verður upprifjunarþáttur og hinn 14. febrúar keppa svo lögin átta í úrslitaþættinum. Vinningslagið verður síðan framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fer í Rússlandi í maí.
Það eru þær Eva María Jónsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir sem munu kynna og hafa umsjón með þáttunum að þessu sinni.
Viðtalsþættirnir Sunnudagskvöld með Evu Maríu hafa nú lagt upp laupana í bili, en í staðinn mun hún hafa umsjón með Söngvakeppni Sjónvarpsins ásamt Ragnhildi. Um leið og Söngvakeppninni lýkur tekur svo Gettu betur við, en Eva María er nýr spyrill og stjórnandi þáttanna.