Félagsmiðstöðin Ársel vann söngkeppni Samfés, sem lauk fyrir stundu en sent var út frá keppninni í Útvarpinu. Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir, 15 ára, og aðrir fulltrúar Ársels fluttu lagið Mercy, sem velska söngkonan Duffy hefur gert frægt.
Í öðru sæti varð Elísabet Ormslev frá Laugó en hún flutti lagið Unbreak my heart sem Tony Braxton flutti upphaflega.
Í þriðja sæti varð María Ólafsdóttir frá Bólinu. Hún flutti lagið Inside your heaven.
Stúlkurnar sem enduðu í fyrstu þremur sætunum fengu m.a. upptökutíma hjá Error stúdíói.
Um 1.500 manns tóku þátt í undankeppnum Samfés en 29 atriði kepptu til úrslita. Tæplega 3.000 manns voru á lokakeppninni í Laugardalshöll.
Söngkeppnin er hluti af árshátíð Samfés, samtaka félagsmiðstöðva, sem hófst í Laugardalshöllinni í gærkvöldi með miklu balli, en þar komu meðal annars fram Veðurguðirnir, Bloodgroup, Dr. Spock og Páll Óskar. Þrjátíu atriði frá jafnmörgum félagsmiðstöðvum tóku þátt í keppninni í dag.