„Þetta var rosalega gaman, og æðisleg tilfinning,“ segir Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir úr félagsmiðstöðinni Árseli í Reykjavík sem sigraði í Söngkeppni Samfés sem haldin var í Laugardalshöllinni á laugardaginn. Ólöf söng lagið „Mercy“ sem velska söngkonan Duffy gerði vinsælt á síðasta ári, og dugði það henni til sigurs. Aðspurð segist hún þó ekki hafa búist við að sigra. „Ekkert frekar, þetta var hörð samkeppni og margir góðir í ár,“ segir Ólöf, en alls voru 29 atriði í keppninni.
Ólöf er 15 ára gömul og segist hafa stundað söng nánast allt sitt líf.
„Ég hef í rauninni verið að syngja síðan áður en ég byrjaði að tala. En annars er ég að syngja fyrir Sollu stirðu í Latabæ, og svo var ég í Skilaboðaskjóðunni, Sönglist og fleiru,“ segir Ólöf sem er að læra klassískan söng í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Aðspurð segist hún stefna langt í söngnum. „Mig langar til að verða svona leik- og söngkona, eins og Selma Björnsdóttir, vera í söngleikjum og svona,“ segir hún.