Stjarna, með nafni tónlistarmannsins George Harrisons, var afhjúpuð á Frægðarveginum svonefnda í Hollywood í kvöld. Meðal viðstaddra voru ekkja og sonur Harrisons og Paul McCartney, félagi hans í Bítlunum.
Harrison lést af völdum krabbameins árið 2001, 58 ára að aldri. Útgáfufélagið Capiton tilkynnti í kvöld, að tónlist hans yrði gefin út að nýju.
Olivia, ekkja Harrisons, og Dhani, sonur þeirra, afhjúpuðu stjörnuna. Nú eru 2382 stjörnur á gangstéttinni við Hollywood Boulevard með nöfnum leikara og annarra listamanna sem tengst hafa kvikmyndum.
Harrison var gítarleikari Bítlanna. Þótt hann væri í skugga McCartheys og Johns Lennons sem lagasmiður samdi hann nokkur af þekktustu lögum hljómsveitarinnar, þar á meðal Taxman, Here Comes the Sun og Something.