Fyrirtækið Reveille Productions, sem m.a. stendur á bakvið bandarísku útgáfurnar af þáttunum The Office og Ljótu Betty, er í samningaviðræðum við aðstandendur Næturvaktarinnar um kaup á rétti til að þróa þættina fyrir bandarískan markað.
Haft er eftir Howard Owens, framkvæmdastjóra Reveille, að fyrirtækið vilji gjarnan fást við nýja vinnustaðargamanþætti í kjölfar velgengni The Office. „Þættirnir hafa sniðugt og kaldhæðið sjónarhorn sem við teljum að Bandaríkjamönnum muni líka vel. Reuters-fréttastofan sagði frá þessu í gær. Þar sagði reyndar að samningar væru frágengnir en það er ekki rétt, samkvæmt Magnúsi Viðari Sigurðssyni, einum framleiðenda Næturvaktarinnar.
„Við erum í miðju samningsferli. Það er ekki búið að ganga frá þessu. Þeir eru að falast eftir svokölluðum „option“-samningi, sem gerir þeim kleift að reyna að selja þessa áætluðu endurgerð áfram. Og þar keppa þeir við alla þessa tugi þátta sem er reynt að koma í loftið ár hvert. Það kemur mér á óvart að Reuters hafi pikkað þetta upp svona snemma. Þetta lítur ágætlega út en við erum niðri á jörðinni með þetta. Það getur brugðið til beggja vona.“