Réttardómastjóri í Los Angeles hefur frestað því um óákveðinn tíma að birta niðurstöður krufningar á líki poppstjörnunnar Michael Jackson. Er þetta gert að beiðni lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna.
Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóm er lögregla nú að rannsaka tengsl Dr. Conrad Murray, einkalæknis Jacksons, við aðra lækna en Murray er grunaður um að hafa valdið dauða Jacksons með gáleysislegri lyfjagjöf.
Á meðal þeirra sem talið er hugsanlegt að tengist málinu eru Dr. Arnold Klein, húðsjúkdómalæknir Jacksons, gigtarlæknirinn Allan Metzger, næringar og hjúkrunarfræðingurinn Cherilyn Lee, tannlæknirinn Mark Tadrissi, svæfingalæknirinn Randy Rosen og háls, nef og eyralæknirinn David Slavit.
Slavit var ráðinn til að meta heilsu Jacksons fyrir nokkrum mánuðum vegna fyrirhugaðra tónleika hans á vegum fyrirtækisins AEG Live.Í gögnum lögreglu er vísað til Jacksons sem lyfjafíkils og líkum leitt að því að brot Murray hafi falist í því að útvega honum þau efni sem hann hafði ánetjast.