L. Londell McMillan, lögmaður Katherine Jackson, móður poppstjörnunnar Michael Jackson, segir ekki rétt að hún vilji endurrita erfðaskrá hans frá árinu 2002. Hún vilji hins vegar frá úr því skorið hvort eðlilega hafi verið staðið að meðhöndlun hennar.
Í erfðaskránni eru lögfræðingurinn John Branca og útgefandinn John McClain tilnefndir fjárhaldsmenn dánarbús Jackson en móðir hans, þrjú börn hans og nokkur góðgerðarfélög eru tilnefnd sem erfingjar þess.
Katherine hefur farið fram á dómsúrskurð um aukna aðkomu sína að ákvarðanatöku varðandi dánarbúið og hefur Howard Weitzman, lögfræðingur Branca og McClain, sakað hana um að vilja endurrita erfðaskránna.
„Hann hefur rangt fyrir sér. Frú Jackson véfengir ekki erfðaskránna. Við erum ekki að reyna að endurrita erfðaskránna. Það sem við viljum er að hafi einhver óvenjumikil völd njóti sá hinn sami einnig óvenjumikils trausts og virðingar,” segir hann.
„Spurningin er sú hvað varð um þessa erfðaskrá árið 2002. Hvernig stendur á því að það vissi enginn um hana? Hvernig stendur á því að frú Jackson vissi ekki um hana? Hvernig stendur á því áð ég vissi ekki um hana? Hvernig stendur á því að við heyrðum fyrst um hana daginn sem við lögðum fram yfirlýsingu um að hann hafi látist án þess að skilja eftir sig erfðaskrá?”
McMillan segist einnig telja að dánarbúið sé nokkurra milljarða Bandaríkjadollara virði en ekki 500 milljón dollara virði líkt og slegið hefur verið fram.