Fyrrum barnastjarna og vinur poppkóngsins Michaels Jacksons segir mögulegt að hann sé faðir eins af börnum Jacksons. Mark Lester sagði í viðtali við breska blaðið News Of The World að hann hafi gefið popparanum sæði. Hann sé reiðubúinn að gangast undir faðernispróf.
„Ég held að Paris gæti verið dóttir mín,“ segir hann og bendir á að hún sé mjög lík Harriet dóttur sinni.
Lester, sem er 51 árs, skaust á stjörnuhimininn árið 1968 þegar hann lék Oliver Twist í samnefndri mynd. Hann hefur verið vinur Jacksons í um 30 ár.
Hann er guðfaðir Parísar, sem er 11 ára, og drengjanna Prince og Prince Michael II, sem eru tólf og sjö ára gamlir.
Jackson fékk hjartaáfall og lést á heimili sínu í Los Angeles 25. júní sl.