Janet Jackson, systir söngvarans Michael Jackson, hefur nú í fyrsta sinn tjáð sig opinberlega um skyndilegt fráfall hans í júní. Í viðtali við tímaritið Harper's Bazaar segist hún ekki hafa horft á fréttir frá fráfalli hans.
Janet segir að stöðugur fréttaflutningur af málinu myndi gera hana brjálaða og bætir því við að það séu ekki allir gerðir úr steini.
Þá segist hún virkilega stolt af ellefu ára bróðurdóttur sinni sem minntist föður sína við opinbera minningarathöfn um hann. Einnig fer hún lofsamlegum orðum um móður sína Katherine Jackson sem nú fer með forræði þriggja barna Michael.
„Mig hefur alltaf dreymt um að hafa styrk móður minnar en ég vissi ekki hvort hann væri raunverulega til staðar," segir hún. Þá segist hún hafa leitað í mat í sorg sinni. „Ég borða stundum af tilfinningalegum ástæðum og ég hef verið að gera það upp á síðkastið."
Hún segir einnig frá því að hún hafi síðast hitt bróður sinn um sex vikum fyrir andlát hans. „Við skemmtum okkur svo vel þann dag," segir hún. „Við hringdum aftur og aftur hvort í annað til að tala um hvað það hefði verið frábært."
Janet var við kvikmyndatökur í Atlanta er henni var tilkynnt um lát bróður síns í síma og hélt hún þá rakleitt til Los Angeles þar sem hún hefur að mestu dvalið síðan.