Tyrkinn Sultan Kösen er enn hæsti maður heims. Tvítugur karlmaður frá Indónesíu, sem talinn var geta skákað honum, reyndist 5 sm lægri en heimsmethafinn.
Suparwono hafði aldrei verið mældur formlega, en heimamenn töldu að hann væri a.m.k. 2,71 metri. Hann reyndist við mælingu á Metasafninu í Indónesíu, hins vegar aðeins vera 2,42 metri en Kosen er 2,47 metri.
Suparwono þarf þó ekki að örvænta því hann telst engu að síður vera hæsti maðurinn í sögu Indónesíu.
„Eftir að teymi okkar hjá á Metasafninu hefur mælt hann bæði standandi og liggjandi getum við staðfest að hann er 2,42 metri,“ segir Ngadri, forstjóri safnsins og bætir við: „Við höfðum fengið fréttir af því að í morgun að hann hefði mælst 2,71 metri á spítala, en við verðum að halda okkur við eigin mælingar.“
Suparwono öðlaðist skyndilega heimsfrægð vegna hæðar sinnar í síðustu viku þegar ættingi hans í þorpinu Tri Tunggal, sem staðsett er í Lampung héraða á suðurhluta eyjunnar Súmötru, leyfði nágranna sínum að taka mynd af honum. Hann hefur síðan þá komið fram í sjónvarpi í heimalandi sínu og fengið mikla athygli.
Suparwono segist stundum vera stoltur af hæð sinni, en viðurkennir að hún valdi honum einnig talsverðum óþægindum þar sem hann eigi erfitt með að lifa venjulegu lífi. Þannig passi hann naumast inn í strætisvagna eða rútur og mjög erfitt getur reynst fyrir hann að finna nægilega stór föt.
„Ég gerði mér fyrst grein fyrir afbrigðilegri hæð minni þegar ég var aðeins tíu ára gamall. Á þeim þeim var ég þegar orðinn hæstur bæði í skólanum mínum og þorpinu þar sem ég bjó,“ sagði Suparwono í samtali við heimasjónvarpsstöð.
Suparwono segist borða þrjú kíló af hrísgrjónum á degi hverjum og a.m.k. 15 egg. Hann á fjögur systkini og býr með foreldrum sínum. Sem unglingur langaði hann til þess að verða körfuboltaleikmaður, en líkami hans þoldi ekki álagið sem fylgdi íþróttaiðkuninni.