Pólskur karlmaður kom fyrir rétt í Lundúnum í dag, ákærður fyrir að áreita leikkonuna Keiru Knightley. Maðurinn var handtekinn á fimmtudagskvöld utan við leikhús þar sem leikkonan leikur um þessar mundir.
Marek Daniluk, 41 árs, var handtekinn utan við Comedy Theatre þar sem Knightley, sem er 24 ára, leikur í Mannhataranum eftir Moliere.
Knightley, sem hefur leikið í mörgun kunnum kvikmyndum þrátt fyrir ungan aldur, hefur áður kvartað yfir áreiti. Fyrir fimm árum sagði hún að fimm karlmenn áreittu sig stöðugt.