Liðsmenn poppsveitarinnar The Scissor Sisters ákváðu síðasta sumar að henda öllu því sem þeir voru búnir að taka upp fyrir þriðju breiðskífu sína og byrja upp á nýtt. Átján mánaða vinna fór þar með á haugana.
Söngvarinn Jake Shears segir í samtali við breska ríkisútvarpið að hljómsveitin vilji ekki gefa neitt út sem hún hafi ekki trú á. Geri hún það þá geti sveitin alveg dregið sig í hlé.
„Ef við gefum eitthvað út sem er undir meðallagi þá yrði það endalok Scissor Sisters,“ segir Shears.
Liðsmenn sveitarinnar ákváðu því að byrja upp á nýtt og er þriðja breiðskífa hennar, sem ber nafnið Night Shift, væntanleg í júní.