Borgarleikhúsið segir ranghermt að leikarinn Hilmir Snær Guðnason hafi yfirgefið það. Fram kemur í tilkynningu að Hilmir Snær sé á samningi við Borgarleikhúsið, en hann hafi í samráði við það tekið að sér hlutverk í tveimur verkefnum í Þjóðleikhúsinu næsta haust.
„Meðal verkefna hans í Borgarleikhúsinu á næsta leikári er leikstjórn á Kirsuberjagarðinum en sú uppsetning kemur í kjölfar verðlaunauppsetningar hans á Fjölskyldunni og eftir áramót mun hann leika burðarhlutverk í nýju verki í Borgarleikhúsinu.
Að auki fer hann með hlutverk sín í uppsetningum leikhússins á Strýhærða Pétri og Faust.
Leikár Borgarleikhússins og mönnun verður kynnt í heild sinni þegar nær líður hausti, venju samkvæmt,“ segir í tilkynningunni.