„Þetta hefur safnast upp á löngum tíma, hér eru bæði gömul og ný lög á ferð, sum eru alkunn hjá þjóðinni en hafa ekki verið til í nýrri útgáfu um áratuga skeið en hafa alltaf lifað hjá landsmönnum og þau set ég í nýjan búining með pusi í,“ segir Árni Johnsen sem nýverið sendi frá sér plötuna Fullfermi af sjómannasöngvum, og eins og titillinn gefur í skyn inniheldur hún sum af vinsælari sjómannalögum Íslendinga. Af 41 lagi eru 30 sem aldrei hafa heyrst áður í nýrri útgáfu Árna en 11 lög hafa komið út við önnur tilefni.
Mikil „spenningur og stuð“ einkennir plötuna að sögn Árna og á hún að vera „hrífandi og leikandi,“ enda var hún tekin upp í „lifandi stíl,“ segir hann. „Menn telja í og byrja svo að spila. Þannig nýtist samspilið og drifkrafurinn í hverjum og einum“.
Þá hlýtur drifkrafurinn að vera ansi mikill því fjöldamargir þjóðkunnugir tónlistarmenn koma fram á plötunni – „landsliðssöngvarar“ eins og segir á plötunni. Til að mynda spila þar Kjartan Valdemarsson píanóleikari, Rúna Georgsdóttir saxófónleikari, Samúel Samúelsson básúnuleikari, Sigurður Alfonsson harmonikkuleikari, og svo syngja Kristján Jóhannsson, Ragnar Bjarnason, Stefanía Svavarsdóttir, Hrönn Svansdóttir, Einar Hallgrímsson og Hallgrímur Þórðarson ásamt félögum úr Karlakórnum Þöstum í Hafnarfirði. „Menn gengu til verka og lögðu allt í það. Það hefur mjög gaman að fá þessa landskunnu söngvara með og þessa frábæru söngvara úr Karlakórnum Þröstum,“ segir Árni.
Hann segist spenntur fyrir nýja sviðinu í Eyjum sem verður vígt nú í ár. „Byggingin er á heimsmælikvarða. Þar spila náttúran og tæknin fullkomlega saman,“ segir Árni og segir brekkuna taka eins og faðmur við allri tóngjöf. „Við erum rétt að byrja,“ segir hann aðspurður hvort hann sjá fyrir sér tónleikahald á nýja sviðinu. Annars vinnur hann nú að útsetningar- og tónlistarverkefnum bæði hérlendis og erlendis.