Söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir er að flytja til Óslóar í Noregi, að því er kemur fram á Eurovisionvefnum esctoday.com.
Haft er eftir Jóhönnu Guðrúnu, að hún ætli að læra norsku og reyna fyrir sér í söngnum. Hún nýtur talsverðra vinsælda í Noregi eftir að hún var fulltrúi Íslands í evrópsku söngvakeppninni í Moskvu árið 2009.
Esctoday.com segir, að Jóhanna Guðrún gefi meira að segja í skyn, að ef fái hún rétta lagið upp í hendurnar og tímasetningar passi geti vel verið að hún taki þátt í norsku undankeppninni fyrir Eurovision.