Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson vill að Ríkisútvarpið dragi íslenska lagið úr Evróvisjónsöngvakeppninni sem haldin verður í Bakú í Aserbaídsjan síðar á árinu. Páll Óskar telur að mannréttindabrot framin í landinu ættu að vera nægileg ástæða til taka ekki þátt í ár.
Þessa skoðun sína viðrar Páll Óskar á samfélagsvefnum Facebook, og vísar í fréttaflutning af mannréttindabrotum í Bakú, s.s. því að íbúum í borginni sé vísað af heimilum sínum svo hægt sé að byggja glæsihýsi tengd keppninni.
„Það ætti að vera þver pólitísk samstaða milli þjóða um að mannréttindabrot verði aldrei liðin. Afstaða mín er einföld. Ísland á að draga sig útúr Eurovision keppninni í Bakú í Aserbaídsjan. Mannréttindi í fyrsta sæti – Eurovision í öðru sæti,“ segir Páll Óskar og hefur fengið góð viðbrögð við færslu sinni.
Páll Óskar er annar tveggja kynna á úrslitakvöldi forkeppninnar hér á landi sem fram fer í Hörpu á laugardag. Páll segist ekki ætla að minnast einu orði á Aserbaídsjan en segir svo: „Ég hef nú þegar hvatt Pál Magnússon til að afþakka þátttöku Íslands í Eurovision í Bakú. Ég vona að hann geri það og taki þessari áskorun minni. Listamaðurinn sem vinnur keppnina á laugardaginn getur líka afþakkað ferðina sjálfur ef hann vill.“
Meðal þeirra sem tekið hafa undir skoðun Páls Óskars er Illugi Jökulsson. Í færslu á vefsvæði sínu segir Illugi að eina réttlætingin fyrir því að taka þátt í keppninni sé að um græskulausa og saklausa skemmtun sé að ræða. „En þegar þessi græskulausa saklausa skemmtun er hvorki græskulaus né saklaus, þá er engin ástæða til að vera með. Og það má kveða sterkar að orði – þá eigum við ekki að vera með.“
Færslu sinni lýkur Illugi svo á spurningu til þeirra sem taka þátt á úrslitakvöldinu í Hörpu: „Geta keppendur Íslands stigið á svið í Bakú höfuðborg Aserbaídsjan vitandi að fátækt fólk var rekið á hrottalegan hátt frá heimilum sínum til að reisa glitrandi sviðið?“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rætt erum mannréttindabrot í Aserbaídsjan í tengslum við Evróvisjónsöngvakeppninni. Eftir keppnina í fyrra var sagt frá því að stjórnendur evrópskra sjónvarpsstöðva og aðdáendur Evróvisjón hefðu áhyggjur af mannréttindabrotum gegn hommum og lesbíum í Aserbaídsjan og teldu óheppilegt að söngvakeppnin verði haldin í Bakú.