Carroll Hall Shelby, sem nefna má frægasta bílahönnuð heims, er látinn, 89 ára að aldri. Shelby lést á Baylor-sjúkrahúsinu í Dallas í gær en hann var lagður inn vegna lungnabólgu. Fyrirtæki hans, Shelby American, tilkynnti lát hans.
Ford Shelby Mustang er ein af frægustu bíltegundum sögunnar. Fyrstu Shelby-bílarnir komu á markað árið 1965 og nú síðast í apríl var Shelby GT1000 frumsýndur.
Carroll Shelby fæddist 11. janúar 1923 í Texas. Hann keppti lengi vel sjálfur í akstursíþróttum og ók fyrir helstu bílaframleiðendur heims, m.a. Ferrari. Hann þurfti að hverfa frá keppni árið 1960 vegna hjartakvilla.
Þegar keppnisferlinum lauk hófst annar ferill; í bílahönnun. Hann varð goðsögn í greininni og starfaði fram til dauðadags hjá fyrirtæki sínu.