Tónlistarkonan Elíza Newman skrifaði undir höfundarréttarsamning í síðustu viku við ameríska fyrirtækið Wixen Music.
Fyrirtækið var stofnað fyrir um 30 árum og er sjálfstætt höfundarréttarfyrirtæki sem býður listamönnum sínum mikið samstarf og góða stjórn á sínum höfundarrétti, að því er segir í tilkynningu.
Þá segir að tónlistarmenn á borð við Neil Young, The Black Keys, Audioslave, Rage Against the Machine, Weezer og Tom Petty séu á meðal listamanna sem Wixen Music eru með á sínum snærum.
Wixen Music mun einbeita sér að því að koma tónlist Elízu á framfæri í ýmsum miðlum. Nefna megi lagið „I Wonder“ af síðustu sólóplötu hennar, en það mun hljóma í ástralska sjónvarpsþættinum Winners and Losers.
Þá segir að Elíza sé um þessar mundir að klára upptökur á þriðju sólóplötu sinni sem muni koma út á Íslandi í haust.