Sonur bandaríska leikarans Sylvesters Stallones, leikarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Sage Stallone, fannst látinn á heimili sínu í Hollywood í gær, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og lögmanni leikarans.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Los Angeles eru engin merki um að honum hafi verið ráðinn bani né að einhver hafi brotist inn á heimili hans. Sage Stallone var 36 ára að aldri og er yngri sonur Stallones af fyrsta hjónabandi.
Var það starfsmaður Sage sem fann hann látinn og lét lögreglu vita, samkvæmt frétt Reuters. Lögmaður hans segir að bæði fjölskylda og vinir hafi haft áhyggjur af honum þar sem ekkert hafði heyrst frá honum daginn áður. Því hafi starfsmaður Sage farið inn á heimilið til að kanna með líðan hans.
Sage Stallone kom fram í nokkrum kvikmyndum, þar á meðal Rocky V þar sem hann lék son Rockys Balboa en Sylvester Stallone fór með hlutverk hnefaleikakappans í Rocky-myndunum. Eins lék hann með föður sínum í kvikmyndinni Daylight.
Móðir Sage Stallones heitir Sasha Czack en Stallone og hún skildu árið 1985 eftir tíu ára hjónaband. Eins og áður sagði áttu þau tvo syni saman en Stallone á þrjár dætur með Jennifer Flavin sem hann er kvæntur í dag.
Í yfirlýsingu sem talsmaður Sylvester Stallone hefur sent frá sér kemur fram að Sylvester Stallone er eyðilagður maður og harmi sleginn vegna fráfalls sonar síns.
Hvorki lögregla né lögmaður Stallone hafa viljað upplýsa um dánarorsök en það eina sem lögmaðurinn hefur viljað segja er að þetta hljóti að hafa verið skelfilegt slys þar sem Stallone hafi verið lífsglaður og haft í nægu að snúast. Sage hafi ekki þjáðst af þunglyndi eða öðrum sjúkdómum sem hefðu getað neytt hann í að fremja sjálfsvíg.
TMZ-slúðurvefurinn segist hins vegar hafa heimildir fyrir því að Sage hafi látist úr ofneyslu fíkniefna.