Breski leikarinn Geoffrey Hughes er látinn, 68 ára að aldri. Íslendingar þekkja hann helst í hlutverki Onslows í gamanþáttunum Keeping up Appearances sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum árum.
Hughes lést í svefni en hann hafði lengi barist við krabbamein í blöðruhálskirtli. Árið 2009 fékk hann bata en krabbameinið kom aftur ári síðar, segir í frétt BBC.
Bretar þekkja hann einnig fyrir hlutverk Eddie Yeats í sápuóperunni Coronation Street en hann lék í þáttunum á áttunda og níunda áratugnum.