Elísabet Bretlandsdrottning var himinlifandi yfir því að fá að taka þátt í skemmtilegu atriði á opnunarhátíð Ólympíuleikanna á föstudag. Í atriðinu var hún sótt af sjálfum James Bond og látið svo líta út fyrir að hún stykki út úr þyrlu í fallhlíf og inn á leikvanginn. Drottningin sagði ekki mikið í atriðinu en þó: „Góða kvöldið, herra Bond,“ er leikarinn Daniel Craig, í hlutverk James Bonds, sótti hana á þyrlunni í Buckinghamhöll.
„Drottningin var himinlifandi með að vera spurð og fá að taka þátt í svo einstökum viðburði,“ sagði talsmaður hallarinnar um helgina við Reuters-fréttastofuna. „Henni fannst mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í Ólympíuleikunum okkar með þessum hætti.“
Borgarstjóri Lundúna fór með drottninguna í skoðunarferð um ólympíugarðinn á sunnudag og sagði að hún hefði verið í skýjunum með atriðið og spurt hvort fólki hefði þótt þetta fyndið og skemmtilegt.
„Ég hef á tilfinningunni að hún hafi notið þess að vera með,“ segir sérfræðingur í málefnum hallarinnar við Reuters. „Hún á ef til vill ekki eftir að koma fram í mörgum hlutverkum sem þessum og ég veit ekki hvort hún fær óskarsverðlaun fyrir þetta.“
Einn af þeim sem héldu utan um framleiðslu þessa einstaka atriðis sagði að ekki hefði mikið þurft til að fá hana til að leika sjálfa sig við hlið James Bond. Það var gert strax á síðasta ári. Atriðið var svo tekið upp í mars og apríl í ár.
Hugmyndina að atriðinu átti sá sem hafði veg og vanda af allri setningarathöfninni, leikstjórinn Danny Boyle.
„Það þarf ekki að segja drottningunni neitt tvisvar,“ sagði Boyle um það að leikstýra drottningunni.
„Hún náði þessu strax,“ sagði hann. Drottningin fékk að sjá atriðið áður en það var frumsýnt á setningarathöfninni.