Breski hönnuðurinn John Galliano hefur verið sviptur frönsku heiðursorðunni Legion d'Honneur, sem er fálkaorða Frakka, sem hann fékk árið 2009 fyrir starf sitt í þágu tískuheimsins.
Galliano, 51 árs, var fyrir ári síðan sakfelldur af dómstóli í París fyrir gyðingahatur og dæmdur til að greiða sekt fyrir athæfið. Svívirti hann gesti á veitingastað í París en Galliano var ölvaður þegar atvikið átti sér stað.
Galliano var rekinn frá tískurisanum Dior í kjölfar hneykslisins,en hann var yfirhönnuður fyrirtækisins í fimmtán ár auk þess að reka eigið vörumerki.
Samkvæmt tilskipun sem forseti Frakklands, François Hollande, hefur undirritað er Galliano óheimilt að bera orðuna hér eftir.
Galliano hefur haldið því fram að hann hafi ekki fordóma gegn gyðingum en viðurkennir að muna ekki eftir kvöldunum sem atvikið átti sér stað. Þar væri áfengis-, svefntöflu- og verkjatöflufíkn um að kenna. Bar hann að hann hefði síðan farið í tveggja mánaða langa meðferð í Arizona-ríki í Bandaríkjunum og í Sviss.