Íva Marín, ung og upprennandi söngstjarna, tók þátt í flutningi á óperunni La Bohème eftir Puccini í Hörpu á þessu ári. Íva Marín hefur verið blind frá fæðingu. Ítarlegt viðtal er við þessa ungu hæfileikaríku stúlku í Víðsjá, tímariti Blindrafélagsins.
Íva Marín Adrichem er fjórtán ára. Móðir hennar er íslensk en faðir hennar hollenskur. Hún bjó í Hollandi í tæp fimm ár. Hún segir í viðtalinu að það hafi verið mjög skemmtilegt að búa í Hollandi
„En þar er mjög lítið frelsi og ég gat ekki verið ein að leika mér úti. Ég þurfti alltaf að hafa einhvern fullorðinn með mér út af umferð og skrýtnu fólki,“ segir Íva Marín. Helsti munurinn á að búa í Hollandi og á Íslandi að hennar mati er sá að hér á landi er minni umferð og færra fólk.
„Uppeldið og skólakerfið er líka miklu strangara í Hollandi. Mér finnst stundum sjokkerandi hvað nemendur leyfa sér að segja við kennarana í skólanum hér á landi.“
Íva Marín er með fartölvu í skólanum og blindraletursskjá og gengur vel í náminu.
„Mér finnst oftast mjög gaman í skólanum. Það er skemmtilegt að læra íslensku og tungumál en ég skil ekki tilganginn með efnafræði og finnst hún leiðinleg.“ Ein manneskja í skólanum sér sérstaklega um að Íva Marín fái námsgögnin á réttum tíma og hún sér líka um prófin. „Hún er alltaf í bekknum og aðstoðar alla þó að hún geri þetta bara fyrir mig,“ segir Íva Marín.
Aðaláhugamál Ívu Marínar er söngur. Hún er bæði í Gradualekór Langholtskirkju og að læra söng hjá Þóru Björnsdóttur í söngdeild Langholtskirkju.
Hún segir að það hafi verið gaman að taka þátt í uppsetningu á La Bohème
„Það var rosalegt. Þetta er örugglega það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífinu og það hljómar kannski væmið en þetta var ógleymanlegt. Ég hélt að ég myndi ekki fá þetta hlutverk af því að ég er náttúrlega blind og þetta er rosalega mikil hreyfing um sviðið og þú þarft að gera þetta og hitt nákvæmlega á réttum tíma. Þetta er nákvæmnisvinna þannig að ég efaðist eiginlega um að ég myndi fá þetta hlutverk. En ég fékk það,“ segir Íva Marín og brosir breitt.