Raftækjarisi og róttækur rappari

Psy fagnar innilega er hann tekur við verðlaunum á MTV-hátíðinni …
Psy fagnar innilega er hann tekur við verðlaunum á MTV-hátíðinni í Evrópu fyrir besta myndband ársins. AFP

„Framleitt í Suður-Kóreu“ fékk algjörlega nýja merkingu í ár. Frá þessu fjarlæga landi kom tvennt á „markaðinn“ sem sló í gegn og öll met: Vörur frá raftækjarisanum Samsung og tónlist frá róttæka rapparanum Psy. Suður-Kóreubúar taka þessu fagnandi enda finnst þeim þeir ekki metnir að verðleikum og oft misskildir.

Þó að sumir setji spurningarmerki við menningarlegan ávinning af heimsfrægð þybbins rappara á fertugsaldri og hans hrossalegu hreyfingum, eru fáir sem efast um þá landkynningu sem Psy og lag hans Gangnam Style hefur verið.

Og allir vilja eiga eitthvað í Psy, sem hefur riðið ósýnilegum hesti sínum inn í sjálft Hvíta húsið og heilsað upp á sjálfan forseta Bandaríkjanna.

Myndabandið við lag hans er það vinsælasta hingað til í sögu YouTube og hefur verið spilað að vefnum yfir 922 milljónum sinnum. Líklegt þykir að áhorfið fari yfir milljarð áður en árið er úti.

Hugsanlega verður Gangnam Style hans eina vinsæla lag og margir eru löngu komnir með leiða á því, þeirra á meðal sjálfur flytjandinn.

„Stundum, hreinskilnislega, verð ég mjög þreyttur á þessu lagi,“ sagði Psy er hann var á tónleikaferð í Singapúr.

Í nóvember fékk Psy orðu í heimalandinu, fyrir að „auka áhuga fólks á Kóreu,“ eins og utanríkisráðherrann orðaði það.

En það er ekki eintómur dans á rósum að verða frægur á einni nóttu. Ekki leið á löngu þar til andstæðingar Psy drógu fram í dagsljósið ummæli sem rapparinn lét falla á tónleikum árið 2004. Þar mótmælti hann innrás Bandaríkjamanna í Írak og söng um að bandarískir hermenn ættu að fá hægan og kvalarfullan dauðdaga.

Psy hefur beðist afsökunar á ummælunum og „þjáningu sem þau kunnu að hafa valdið“.

En þrátt fyrir skjóta frægð er Suður-Kórea langt frá því að njóta sömu virðingar og umtals og nágrannaríkin Kína og Japan.

Umskipti Suður-Kóreu úr stríðshrjáðu einræðisríki til lýðræðis hafa ekki gengið átaklaust fyrir sig. Nú er hagkerfi þess það fjórða stærsta í Asíu - staðreynd sem Suður-Kóreumenn eru mjög stoltir af.

En þrátt fyrir þetta kemst landið oftar í fréttir fyrir hundaát og Kóreustríðið.

Og þó að raftækjarisinn Samsung hafi átt velgengni að fagna um árabil var það ekki fyrr en í ár að hann ásamt fyrirtækinu LG fékk uppreisn æru og fólk áttaði sig á því að fyrirtækinu eru suðurkóresk en ekki japönsk eða taívönsk.

Árið 2012 hefur verið það besta í sögu Samsung og Apple hefur mátt passa sig í samkeppninni á snjallsíma- og spjaldtölvumarkaði.

Samsung sópaði Nokia úr toppsætinu í framleiðslu og sölu á snjallsímum í ár en þar hefur Nokia trónað í fjórtán ár samfleytt. Samsung hefur nú tekið stóran bita af þeirri köku 31,3% seldra farsíma í ár eru frá fyrirtækinu samanborið við aðeins 3,3% árið 2009. Apple hefur orðið að láta sér nægja 15% af þessum markaði í ár.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa á síðustu árum lagt mikla fjármuni í landkynningu. Það sem hefur hins vegar skipt sköpum í þeirri markaðssetningu eru vinsældir popptónlistar og sápuópera. Hingað til hafa aðdáendurnir aðallega verið Asíubúar - en Psy hefur breytt því.

Það þykir sanna enn eina ferðina að oftast eru það ekki ríkisstyrkt kynningarátak sem skilar mestu heldur einstaklingar sem koma sjálfum sér á framfæri.

Simon Anholt er sérfræðingur í markaðssetningu. „Lönd eru dæmd út frá því sem þau gera og framleiða, ekki hvað þau segja um sjálf sig,“ segir hann. „Ef land vill njóta aðdáunar verður það að vera aðdáunarvert. Það er ekkert flóknara en það.“

Samuel Koo, sem fer fyrir kynningarstofnun Suður-Kóreu, segist meðvitaður um þetta. Hins vegar hafi orðið hröð breyting í Suður-Kóreu síðustu árin og því vilji ríkisstjórnin halda á lofti.

„Ef einhver af minni kynslóð vildi verða poppstjarna hefði sá hinn sami verið skotinn. Jæja, kannski ekki skotinn, en í það minnsta hefði verið snúið upp á handlegginn á honum þar til hann hætti við.“

Allir kannast við lagið og danssporin.
Allir kannast við lagið og danssporin. AFP
Psy kennir Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, danssporin frægu.
Psy kennir Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, danssporin frægu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir