Valdi verkið Stúlkur við söltun

Jón Gnarr, borgarstjóri valdi Stúlkur við söltun eftir Gunnlaug Blöndal …
Jón Gnarr, borgarstjóri valdi Stúlkur við söltun eftir Gunnlaug Blöndal sem verk vikunnar

Jón Gnarr borgarstjóri valdi Stúlkur við söltun eftir Gunnlaug Blöndal sem verk vikunnar á sýningunni Flæði sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum.

Listasafn Reykjavíkur hefur beðið nokkra einstaklinga að velja sér uppáhaldsverkið sitt á sýningunni. Viðkomandi er jafnframt beðinn að segja gestum á sýningunni frá því hvað það er sem gerir verkið einstakt. Þetta verður gert á hverjum fimmtudegi kl. 12:15 meðan á sýningunni stendur eða til 20. maí.

Jón Gnarr borgarstjóri reið á vaðið á Kjarvalsstöðum í dag og valdi verkið Stúlkur við söltun eftir Gunnlaug Blöndal (án ártals).

Í umsögn borgarstjóra um verkið á Kjarvalsstöðum í dag kom meðal annars þetta fram:
„Ég valdi verkið Stúlkur við söltun því mér finnst það fallegt, bjart og áhugavert. Það er afslappað og alþýðlegt. Það segir ákveðna sögu um íslenska menningu og fyllir mig stolti og bjartsýni. Ég finn fyrir ákveðinni tengingu við það og mér finnst ég þekkja konurnar á myndinni. Ég var alin upp af svona konum, mamma mín var svona kona.“

Gunnlaugur Blöndal (1893-1962) lærði í Ósló og síðar í París þar sem hann markaði sér vissa sérstöðu meðal íslenskra listamanna. Á Parísarárunum naut hann mikillar velgengni og þá sérstaklega fyrir málverk af konum og draumkenndu landslagi í anda Parísarskólans (École de Paris). Verk eftir hann var valið á „Haustsýninguna“ í París árið 1925 og hann var jafnframt valinn einn af fulltrúum franskrar nútímalistar til að sýna í Tókýó það sama ár, samkvæmt upplýsingum frá Listasafni Reykjavíkur.

Stúlkur við söltun eftir Gunnlaug Blöndal er án ártals en hann gerði verkið líklega á árunum 1935-1940 en á því tímabili vann hann fleiri myndir af síldarverkun. Líkt og aðrir samtímamenn Gunnlaugs á árunum eftir seinni heimsstyrjöld málaði hann myndir af alþýðunni og vinnandi fólki. Gunnlaugur og fleiri listamenn eins og Þorvaldur Skúlason, Jón Stefánsson, Kjarval og Jón Þorleifsson sóttu sér m.a. myndefni við höfnina í Reykjavík, þar sem nú er landfylling við Tryggvagötu (þar sem Hafnarhúsið stendur).

Stúlkur við söltun eftir Gunnlaug Blöndal (án ártals) var keypt í safn Listasafns Reykjavíkur árið 1958.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir