Brad Pitt og Angelina Jolie hafa gengið til liðs við Perrin-fjölskylduna frönsku, sem er þekkt víngerðarfólk í Frakklandi. Munu þau í samvinnu við fjölskylduna framleiða vín úr þrúgum frá landareign sinni, Chateau Miraval.
„Við tökum ríkan þátt í framleiðslunni og erum mjög spennt yfir þessu verkefni okkar og vina okkar, Perrin-fjölskyldunnar,“ hafði talskona parsins eftir Pitt.
Þrátt fyrir að Perrin-fjölskyldan muni að mestu sjá um framleiðsluna hefur leikaraparið tekið virkan þátt í undirbúningnum, m.a. sótt smakkanir og komið að hönnun bæði flösku og merkis framleiðslunnar. Mun hún seld undir merkjum Jolie-Pitt and Perrin en fyrsta vínið til að koma á markað frá þeim verður rósavín.
Að sögn Marcs Perrins kynntust leikaraparið og fjölskyldan í gegnum sameiginlega vini í Frakklandi og hefur samstarf þeirra farið afar vel af stað. Í viðtali við tímaritið Challenges sagði hann leikarana hið vænsta fólk og leggja mikið upp úr gæðum framleiðslunnar.