Valdi verk eftir Gunnlaug Blöndal

Guðrún Ásmundsdóttir leikkona valdi Konu með bók eftir Gunnlaug Blöndal …
Guðrún Ásmundsdóttir leikkona valdi Konu með bók eftir Gunnlaug Blöndal sem verk vikunnar á sýningunni Flæði.

Guðrún Ásmundsdóttir leikkona valdi listaverkið Konu með bók eftir Gunnlaug Blöndal sem verk vikunnar á sýningunni Flæði í Listasafni Reykjavíkur. Guðrún segir verkið veki hjá sér minningar um listamanninn, en hún sat á sínum tíma nakin fyrir hjá Gunnlaugi.

Listasafn Reykjavíkur hefur leitað til þjóðþekktra einstaklinga og beðið þá um að velja sér uppáhaldsverkið sitt á sýningunni Flæði á Kjarvalsstöðum og segja gestum á sýningunni frá því á hverjum fimmtudegi kl. 12.15. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona valdi verkið Kona með bók  eftir Gunnlaug Blöndal sem verk vikunnar í hádeginu í dag.

Þetta er í annað sinn sem verk eftir Gunnlaug Blöndal verður fyrir valinu í gestaspjalli en Jón Gnarr borgarstjóri valdi verkið Stúlkur við söltun á sýningunni í síðustu viku.  

Sat nakin fyrir hjá Gunnlaugi Blöndal

Guðrún Ásmundsdóttir sagði þetta m.a. á Kjarvalsstöðum í dag um ástæður fyrir vali sínu á verkinu Kona með bók:

„Ég valdi þetta verk því mér finnst þessi kona undurfalleg og hefði gaman af því að hafa hana hjá mér meðan ég væri að drekka morgunkaffið. Myndin færir mér líka minningar um sjálfan listamanninn eða Gunnlaug Blöndal. Ég kynntist honum þegar ég var ung kona en þá kom þessi fallegi, gráðhærði gamli maður til mín og bað mig um að sitja fyrir hjá sér. Ég samþykkti það og kynntist skemmtilegum og góðum manni. Og svo kom að því að Gunnlaugur bað mig um að sitja nakin fyrir hjá sér. Ég hélt nú ekki, það gerði ekki heiðvirð stúlka á þessum tíma. Þá sagði Gunnlaugur: ,„Allt í lagi en værir þú til í að sitja nakin fyrir ef ég lofa að selja ekki málverkið af þér hér á landi heldur t.d. á Spáni?“ Ég samþykkti það að lokum og hann málaði nokkrar flottar nektarmyndir af mér sem hafa ekki sést hér á landi. Nokkrum árum síðar ákváðum ég og Björn Björnsson, sem var fyrsti eiginmaður minn, að gifta okkur. Gunnlaugur bauðst þá til að mála af mér af portrett og gefa okkur í brúðkaupsgjöf. Ég var alsæl og sat fyrir. Gunnlaugur bauð okkur síðan að koma til sín rétt fyrir brúðkaupið og sækja myndina. Kærastinn minn horfði þá lengi á verkið og spurði Gunnlaug síðan: „Af hverju er svona mikið grænt í hárinu á henni Gunnu?“ Listamaðurinn brást vel við þessari athugasemd og bauðst til að laga myndina. Nokkru eftir brúðkaupið ætluðum við Björn svo að sækja myndina til Gunnlaugs en þá var hann látinn. Ég á því á enga mynd eftir Gunnlaug en hins vegar það sem er dýrmætara eða fallegar minningar. Það væri þó gaman að sjá þetta portrett einhvern tíma.“

Myndin var tekin upp í skuld

Kona með bók (án ártals) eftir Gunnlaug Blöndal var tekin upp í vangoldin fasteignagjöld hjá Reykjavíkurborg í september 1991 og komst þar með í safneign Listasafns Reykjavíkur. Konan á myndinni er talin vera Liv Ellingsen, eiginkona Halldórs Halldórssonar bankastjóra á Ísafirði.

Um listamanninn Gunnlaug Blöndal

Gunnlaugur Blöndal (1893-1962) lærði í Ósló hjá Christian Krogh sem kenndi litameðferð og aðferðir Henri Matisse.  Krogh hvatti hann áfram til náms í París. Á Parísarárunum naut Gunnlaugur mikillar velgengni og þá sérstaklega fyrir portrett, myndir af konum og draumkenndu landslagi í anda Parísarskólans (École de Paris). Velgengni hans var með nokkrum ólíkindum en verk eftir hann var m.a. valið á “Haustsýninguna” í París árið 1925 og hann var einnig valinn sem einn af fulltrúum franskrar nútímalistar til að sýna í Tókýó sama ár.
List Parísarskólans byggir á franskri hefð og einkennist af léttleika, birtu og litanotkun. Í verkum Gunnlaugs er lögð áhersla lögð á gegnsæja birtu og þétt form sem undirstrika hörund kvenlíkamans og mótuðu honum sérstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir