Á sama tíma og allt virtist í himnalagi hjá turtildúfunum Katy Perry og John Mayer herma fregnir nú að parið sé skilið að skiptum.
„Þetta er sorglegt,“ hefur tímaritið Us Weekly eftir ónafngreindum heimildamanni. Segir sá að þétt dagskrá beggja hafi orðið til þess að þau hafi ákveðið að taka sér hlé. Ekki sé reyndar enn spurt að leikslokum en þau hafi áður hætt saman en sáu þá að sér og tóku upp þráðinn að nýju.
Perry og Mayer sáust fyrst saman í júní síðastliðnum. Uppstytta varð í sambandinu í ágúst en eftir að þau tóku saman á ný mánuði síðar virtist lífið leika við parið, þau sáu t.a.m. ekki sólina hvort fyrir öðru á Grammy-verðlaunaafhendingunni í desember síðastliðnum. Var m.a. þegar farið að ræða um mögulega giftingu og sagðist Mayer m.a. ekki afhuga hugmyndinni í viðtali.
Perry var sem kunnugt er áður gift grínleikaranum Russel Brand um 14 mánaða skeið en þau skildu að skiptum árið 2011. Hvorki umboðsmaður Perry né hún sjálf vildu tjá sig um sambandsslitin þegar eftir því var leitað.