Katy Perry brá sér til eyjunnar Madagaskar, suð-austur af ströndum Afríku, á vegum Unicef á dögunum. Fetaði hún þar m.a. í fótspor Angelinu Jolie og Madonnu.
Það var ekki að sjá að söngkonan væri niðurdregin vegna sambandsslita hennar og John Mayer þar sem hún heimsótti m.a. barnaheimili, sjúkrahús og skóla. Lét hún engan bilbug á sér finna og brá m.a. á leik með börnum þar sem hún kom, fór t.d. í snú snú og kenndi þeim hvernig ætti að bera sig að við að þvo á sér hendurnar.
Í tilkynningu frá hinni 28 ára söngkonu eftir ferðina sagði hún hana hafa verið ógleymanlega. „Á innan við viku hér á Madagaskar fór ég frá þéttbýlum borgum til afskekktra þorpa, þar sem þörfin fyrir heilsusamlegri aðstæður er ótrúleg - t.d. næringu, hreinlætisaðstöðu, varnir gegn nauðgunum og hvers kyns ofbeldi.“
Fékk söngkonan m.a. fræðslu um næringarskortinn sem víða hrjáir börn á eyjunni en þrjú af hverjum fjórum börnum búa þar við mikla fátækt. Engu að síður leggja mörg þeirra mikið á sig við að sækja skóla og ganga daglega langar leiðir segir á vef Hello Magazine.