Þórir Snær Sigurjónsson kvikmyndaframleiðandi og einn eigenda Zik Zak er í Cannes til að fylgja eftir nýrri mynd með Ryan Gosling í aðalhlutverki, Only God Forgives, auk þess að vera að kynna nýja stórmynd á íslenskan mælikvarða, Z for Zaccharia.
Verkefnið Z for Zaccharia hófst fyrir mörgum árum hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands en er nú að verða að alþjóðlegri stórmynd. Craig Zobel mun leikstýra myndinni sem skartar stjörnum einsog Chris Pine úr Star Trek, Amanda Seyfried úr Mama mia og Chiwetel Ejiofor.
Núna er fyrirtækið hans Tobey Maguire, þess sem lék aðalhlutverkið í Spiderman, komið inní framleiðsluna og þetta er farið að rúlla. Myndin er gerð eftir bók. Sagan fjallar um stelpu sem býr í dal eftir að kjarnorkustríð hefur nánast eytt öllu lífi á jörðinni. Hún er eiginlega ein í heiminum. Svo koma tveir gaurar í dalinn og þetta breytist í sálfræðitrylli.
„Það er gaman að segja frá því að í raun er þetta verkefni þróað í gegnum íslensku kvikmyndamiðstöðina. Valdís Óskarsdóttir ráðgjafi hjá Laufeyju Guðjónsdóttur gaf grænt ljós á fyrsta styrkinn á handritið sem Páll Grímsson skrifaði. Verkefnið varð bara svo stórt að hann ákvað að stíga til hliðar og er meðframleiðandi myndarinnar í staðinn. Hann hafði ekki gert neina mynd og þetta verkefni það stórt að það þurfti stærri leikstjóra. Það eru áætlaðar tökur á henni í ágúst-september. Leikstjórinn kemur til Íslands eftir nokkrar vikur til að skoða aðstæður þar, það gæti verið að hluti myndarinnar yrði tekinn þar.“
Þórir Snær er hvað þekktastur á alþjóðamælikvarða fyrir samstarf sitt við Nicolas Winding Refn. Refn leikstýrði bíómyndum einsog Pusher, The Drive og nú síðast Only God Forgives sem er með Ryan Gosling í aðalhlutverki og er í aðalkeppninni í Cannes í ár og Þórir Snær er einn meðframleiðenda. „Þetta er fjórða myndin sem ég er að framleiða með honum.