Stefnan er alltaf að skora

Morgunblaðið/Eggert

Knattspyrnukonan Elín Metta Jensen er Valsari í húð og hár. Í fyrra skoraði hún 18 mörk í Pepsi-deildinni og í júlí fer hún á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu. Monitor rabbaði við markadrottninguna um lífið í boltanum.

Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta?
Ég held ég hafi verið fjögurra ára þegar ég byrjaði að æfa og ég hef bara verið með boltann á tánum síðan. Ég byrjaði að fara á völlinn með pabba ung og eldri systkini mín voru líka í fótbolta.

Varstu „sett“ í fótbolta?
Nei, nefnilega ekki. Mér fannst þetta bara skemmtilegt frá upphafi. Pabbi hefur rosalegan áhuga á fótbolta og ég var alltaf jafn spennt að fara með honum á völlinn og líklega hefur áhugi minn kviknað út frá því. Ég held að mig hafi bara langað að spila og ég var snemma farin að leika mér með bolta.

Þurftir þú að æfa með strákum fyrst þú byrjaði svona ung í fótbolta?
Ég þurfti þess aldrei. Það er svo flottur kvennafótboltinn í Val. Við erum nokkrar sem ólumst upp saman í boltanum og það var alltaf mikil samkeppni á milli okkar og það myndaðist rosalega góð stemmning. Við erum ennþá þrjár eða fjórar úr þessum hóp að æfa saman enn í dag, allar upppaldar sem Valsarar, og það er ofboðslega gaman. Ég er rosalega mikill Valsari og er ofboðslega ánægð með mitt lið.

Áttu þér happatölu?
Ég hef flakkað svolítið á milli númera eftir að ég byrjaði í meistaraflokk en fyrir það spilaði ég alltaf í númer tíu. Bróðir minn var alltaf númer tíu og líklega vildi ég vera eins en ég held að hann hafi valið hana út af Maradona.

Þú varst markadrottning Pepsi-deildarinnar í fyrra og ert einnig markahæst eftir leiki sumarsins með 11 mörk í 8 leikjum.
Ég er allavega markahæst sem stendur og stefni að sjálfsögu á að halda því. Stefnan er auðvitað alltaf að skora.

Hefurðu alltaf verið svona mikill markaskorari?
Já, eiginlega. Mig minnir að ég hafi byrjað mjög sterkt þegar ég var lítil. Ég var sett fram strax í upphafi og hef skorað í gegnum alla yngri flokkana.

Nú ert þú ekki bara fótboltakempa heldur MR-ingur í ofanálag. Skólinn hefur ekki beint það orð á sér að vera auðveldur, hvernig fer námið saman við fótboltann?
Ég valdi brautina Náttúrufræði II sem er kannski aðeins auðveldari braut en Náttúrufræði I, það er aðeins minni stærðfræði á minni braut en auðvitað eru gerðar miklar kröfur til manns. Ég valdi samt Náttúrufræði II út af valinu sem er í sjötta bekk því ef maður er í fótbolta og hefur spilað með landsliðinu getur maður fengið það metið til eininga.

Þú stefndir þá alltaf að því að fara í landsliðið og fá það metið?
Já, þannig lagað. Þegar ég byrjaði í skólanum hafði ég spilað með U19-landsliðinu, minnir mig, og maður fær einhverjar einingar fyrir það líka.

Tekst þér að eiga eitthvert félagslíf milli þess sem þú lærir og spilar fótbolta?
Ég næ einhvern veginn alltaf að púsla þessu saman. Á virkum dögum í vetur fór ég í skólann, á æfingar og svo heim að læra og ef tími gafst til hitti ég vinina en það var ekkert sjálfsagt. Maður kallar þetta svo sem ekki fórn þegar maður er að gera það sem manni finnst skemmtilegt en ég hef alveg þurft að sleppa ýmsu í félagslífinu. Það er samt bara eitthvað sem ég er búin að sætta mig við og myndi ekki vilja breyta.

Þú varst valin í EM-hóp A-landsliðsins núna á mánudaginn var, áttir þú von á að vera valin í hópinn?
Maður vonar auðvitað alltaf það besta en ég bjóst ekkert við því frekar. Ég var mjög stressuð en mér líst mjög vel á það sem er framundan. Það er afar gott að koma inn í þennan hóp, þetta eru svo skemmtilegar stelpur. Það er oft talað um að konur séu konum verstar en ég sé það ekki í þessum hóp. Þær eru allar orðnar svo þroskaðar og taka manni opnum örmum en maður finnur eins fyrir metnaðinum og áhuganum sem er fyrir hendi. Það er æðislegt að vera hluti af svona hópi.

EM fer fram í Svíþjóð í júlí, kemur það ekkert illa við sumarvinnuna?
Ég er að vinna hjá Batik sem sér um bolaprentun og auglýsingavörur. Þeir hafa fullan skilning á því þegar ég þarf að fara aðeins fyrr til að komast á æfingar og svona sem er frábært. Ég þarf aðeins að ræða við þá að ég þurfi frí þarna í júlí en ég held að það verði ekkert mál.

Hvert stefnir þú í framtíðinni?
Ég er rosa spennt fyrir því að prófa að fara í háskólanám í Bandaríkjunum þar sem fótboltastelpur fá oft fullan skólastyrk. Svo er atvinnumennskan líka stór draumur. Mér finnst atvinnumennskan frábært tækifæri til þess að kynnast heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir