Stokkhólms-heilkennið 40 ára

Lögregluþjónar með gasgrímur fylgja Jan Erik Olsson úr Kreditbanken á …
Lögregluþjónar með gasgrímur fylgja Jan Erik Olsson úr Kreditbanken á Norrmalmstorgi í Stokkhólmi eftir gíslatöku sem stóð yfir í fimm daga. EGAN-Polisen

Fjöru­tíu árum eft­ir að hug­takið Stokkólms-heil­kenni varð til eft­ir gíslatöku í höfuðborg­inni sænsku er það enn notað, og mis­notað, til að út­skýra viðbrögð þeirra sem hafa mátt þola að vera haldið í gísl­ingu.

Einn maður veit ná­kvæm­lega hvernig Stokk­hólms-heil­kennið virk­ar: Jan Erik Ols­son man greini­lega þá und­ar­legu at­b­urðarás sem átti sér stað þegar hann gekk inn í banka í Stokk­hólmi 23. ág­úst 1973, tók upp vél­byssu og tók fjóra starfs­menn í gísl­ingu.

„Gísl­arn­ir tóku meira og minna af­stöðu með mér, vernduðu mig í sum­um til­fell­um til að lög­regl­an gæti ekki skotið mig,“ seg­ir Ols­son, 72 ára, sem þá var í leyfi frá fang­els­inu þar sem hann sat inni. „Þau fóru meira að segja niður til að nota sal­ernið og lög­regl­an vildi halda þeim þar en þau komu öll til baka,“ seg­ir hann.

Gísla­tak­an stóð yfir í fimm daga, var sýnd í beinni út­send­ingu og náði há­marki þegar lög­regla gekk að kröf­um Ols­sons og samþykkti að flytja einn aldræmd­asta glæpa­mann Svía, banka­ræn­ingj­ann Clark Olofs­son, á vett­vang. Olofs­son sat þá í fang­elsi.

Ols­son, sem var mun minna þekkt­ur á þess­um tíma, hóf dramað á því að hrópa „Partýið er rétt að byrja!“ og hræddi gísl­ana í fyrstu. „Þú gast séð ótt­ann í aug­um þeirra. Ég vildi bara hræða þau. Ég hef aldrei setið inni fyr­ir neitt sér­stak­lega of­beld­is­fullt,“ seg­ir hann.

Eft­ir ein­hvern tíma umbreytt­ist ótt­inn þó í flókn­ari til­finn­ing­ar, eins og lög­regla komst að þegar hún talaði við einn gísl­anna, Krist­in En­mark, í síma. „Ég er ekki hið minnsta hrædd við Clark eða hinn ná­ung­ann, ég er hrædd við lög­regl­una. Skil­ur þú það? Ég treysti þeim full­kom­lega. Hvort sem þú trú­ir því eða ekki, þá höf­um við haft það virki­lega huggu­legt,“ sagði hún.

Ols­son og Olofs­son gáfu sig að lok­um fram og öll­um gísl­un­um var bjargað. En það urðu ekki sögu­lok.

Þrjú ein­kenni heil­kenn­is­ins

Upp frá þessu hafa hlut­verk fang­ara og fangaðra verið séð í allt öðru ljósi og maður­inn sem skil­greindi hug­takið „Stokk­hólms-heil­kenni“, Frank Och­berg, þykir enn sér­fræðing­ur á þessu sviði.

Och­berg, sem bar vitni við rétt­ar­höld­in yfir Ariel Castro, mann­in­um sem rændi og kvaldi þrjár ung­ar stúlk­ur í ára­tug í Cleve­land í Banda­ríkj­un­um, seg­ir ein­kenni heil­kenn­is­ins þrjú.

Í fyrsta lagi þá eru „þætt­ir sem valda teng­ingu og jafn­vel ást til fang­ar­ans af hálfu gísls­ins,“ sagði hann. Annað ein­kennið er þegar þetta snýst við og fang­ar­an­um fer að þykja vænt um fórn­ar­lamb sitt. „Það er ástæðan fyr­ir því að við vilj­um stund­um búa til Stokk­hólms-heil­kennið ef við get­um, þegar við erum að fást við gíslatöku,“ út­skýrði Och­berg. Þriðja ein­kennið er síðan sam­eig­in­leg fyr­ir­litn­ing fang­ara og fangaðra á um­heim­in­um.

Í dæmi­gerðum til­fell­um ger­ist þetta hratt, þegar gísl­arn­ir eru svo skelfd­ir að þeir eru viss­ir um að þeir muni deyja. „Í byrj­un er þeim meinað um að tjá sig, hreyfa sig, nota sal­ernið og borða. Og þegar þeim eru síðan gefn­ar þess­ar lífs­gjaf­ir, og á meðan þeir njóta þeirra, þá upp­lifa þeir þær til­finn­ing­ar sem við upp­lif­um þegar við erum unga­börn og nærri móður okk­ar,“ seg­ir hann.

Frá því að Stokk­hólms-heil­kennið var fyrst skil­greint hafa sér­fræðing­ar deilt um hversu al­gengt það er. Í fyrstu höfðu menn til­hneig­ingu til að leita eft­ir því en eft­ir að samn­inga­menn FBI efuðust um al­gengi þess dró úr þeirri til­hneig­ingu. Hug­takið hef­ur hins veg­ar náð al­mennri út­breiðslu og er oft rang­lega notað.

Aust­ur­ríska stúlk­an Natascha Kamp­usch komst í leit­irn­ar árið 2006 eft­ir að hafa verið haldið í átta ár í neðanj­arðar­klefa þar sem hún var mis­notuð, svelt og nauðgað. Hún viður­kenndi að hún hefði grátið þegar hún frétti af dauða kval­ara síns og sagði að hún hefði vaxið frá for­eldr­um sín­um. Þetta fékk fólk til að velta vöng­um yfir því hvort hún þjáðist af Stokk­hólms-heil­kenn­inu.

„Þegar mann­eskja hef­ur verið frelsuð gæti hún upp­lifað sig nán­ari fang­ara sín­um en þeim sem voru fjöl­skylda og vin­ir. Ég myndi ekki kalla þetta Stokk­hólms-heil­kenni,“ seg­ir Och­berg.

Sér ekki eft­ir bankarán­inu

Ols­son hef­ur haldið sig á beinu braut­inni síðan hon­um var sleppt úr fang­elsi 1980, unnið sem bíla­sölumaður í Svíþjóð og stundað bú­skap í Taílandi, þar sem hann bjó í 15 ár með taí­lenskri konu sem hann gift­ist fyr­ir 24 árum.

„Ég held ekki að ég myndi vilja taka ránið til baka því það er stór hluti af lífi mínu og margt hef­ur gerst í kjöl­farið,“ seg­ir hann en bæt­ir því við að hann sjái þó eft­ir öll­um þeim tíma sem hann dvaldi í fang­elsi.

Tveir gísl­anna heim­sóttu hann í fang­elsið.

Aðspurður að því hvort hann teldi að heil­kennið væri í raun og veru til svaraði hann: „Hvað í skram­b­an­um er heil­kenni svo sem? Ég veit það ekki.“

Olsson hélt starfsmönnum bankans í hvelfingunni en lögregla tók þessa …
Ols­son hélt starfs­mönn­um bank­ans í hvelf­ing­unni en lög­regla tók þessa mynd með því að láta mynda­vél síga niður gat á hvelf­ing­unni. EGAN-Polisen
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Naut

Sign icon Þar sem þú hefur lagt hart að þér að undanförnu er nú kominn tími til að þú dekrir svolítið við sjálfan þig og þína nánustu. Dagurinn hentar vel til hvers kyns viðskipta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sebastian Richel­sen
2
Torill Thorup
3
Arn­ald­ur Indriðason
4
Lone Theils
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Naut

Sign icon Þar sem þú hefur lagt hart að þér að undanförnu er nú kominn tími til að þú dekrir svolítið við sjálfan þig og þína nánustu. Dagurinn hentar vel til hvers kyns viðskipta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sebastian Richel­sen
2
Torill Thorup
3
Arn­ald­ur Indriðason
4
Lone Theils