Stokkhólms-heilkennið 40 ára

Lögregluþjónar með gasgrímur fylgja Jan Erik Olsson úr Kreditbanken á …
Lögregluþjónar með gasgrímur fylgja Jan Erik Olsson úr Kreditbanken á Norrmalmstorgi í Stokkhólmi eftir gíslatöku sem stóð yfir í fimm daga. EGAN-Polisen

Fjörutíu árum eftir að hugtakið Stokkólms-heilkenni varð til eftir gíslatöku í höfuðborginni sænsku er það enn notað, og misnotað, til að útskýra viðbrögð þeirra sem hafa mátt þola að vera haldið í gíslingu.

Einn maður veit nákvæmlega hvernig Stokkhólms-heilkennið virkar: Jan Erik Olsson man greinilega þá undarlegu atburðarás sem átti sér stað þegar hann gekk inn í banka í Stokkhólmi 23. ágúst 1973, tók upp vélbyssu og tók fjóra starfsmenn í gíslingu.

„Gíslarnir tóku meira og minna afstöðu með mér, vernduðu mig í sumum tilfellum til að lögreglan gæti ekki skotið mig,“ segir Olsson, 72 ára, sem þá var í leyfi frá fangelsinu þar sem hann sat inni. „Þau fóru meira að segja niður til að nota salernið og lögreglan vildi halda þeim þar en þau komu öll til baka,“ segir hann.

Gíslatakan stóð yfir í fimm daga, var sýnd í beinni útsendingu og náði hámarki þegar lögregla gekk að kröfum Olssons og samþykkti að flytja einn aldræmdasta glæpamann Svía, bankaræningjann Clark Olofsson, á vettvang. Olofsson sat þá í fangelsi.

Olsson, sem var mun minna þekktur á þessum tíma, hóf dramað á því að hrópa „Partýið er rétt að byrja!“ og hræddi gíslana í fyrstu. „Þú gast séð óttann í augum þeirra. Ég vildi bara hræða þau. Ég hef aldrei setið inni fyrir neitt sérstaklega ofbeldisfullt,“ segir hann.

Eftir einhvern tíma umbreyttist óttinn þó í flóknari tilfinningar, eins og lögregla komst að þegar hún talaði við einn gíslanna, Kristin Enmark, í síma. „Ég er ekki hið minnsta hrædd við Clark eða hinn náungann, ég er hrædd við lögregluna. Skilur þú það? Ég treysti þeim fullkomlega. Hvort sem þú trúir því eða ekki, þá höfum við haft það virkilega huggulegt,“ sagði hún.

Olsson og Olofsson gáfu sig að lokum fram og öllum gíslunum var bjargað. En það urðu ekki sögulok.

Þrjú einkenni heilkennisins

Upp frá þessu hafa hlutverk fangara og fangaðra verið séð í allt öðru ljósi og maðurinn sem skilgreindi hugtakið „Stokkhólms-heilkenni“, Frank Ochberg, þykir enn sérfræðingur á þessu sviði.

Ochberg, sem bar vitni við réttarhöldin yfir Ariel Castro, manninum sem rændi og kvaldi þrjár ungar stúlkur í áratug í Cleveland í Bandaríkjunum, segir einkenni heilkennisins þrjú.

Í fyrsta lagi þá eru „þættir sem valda tengingu og jafnvel ást til fangarans af hálfu gíslsins,“ sagði hann. Annað einkennið er þegar þetta snýst við og fangaranum fer að þykja vænt um fórnarlamb sitt. „Það er ástæðan fyrir því að við viljum stundum búa til Stokkhólms-heilkennið ef við getum, þegar við erum að fást við gíslatöku,“ útskýrði Ochberg. Þriðja einkennið er síðan sameiginleg fyrirlitning fangara og fangaðra á umheiminum.

Í dæmigerðum tilfellum gerist þetta hratt, þegar gíslarnir eru svo skelfdir að þeir eru vissir um að þeir muni deyja. „Í byrjun er þeim meinað um að tjá sig, hreyfa sig, nota salernið og borða. Og þegar þeim eru síðan gefnar þessar lífsgjafir, og á meðan þeir njóta þeirra, þá upplifa þeir þær tilfinningar sem við upplifum þegar við erum ungabörn og nærri móður okkar,“ segir hann.

Frá því að Stokkhólms-heilkennið var fyrst skilgreint hafa sérfræðingar deilt um hversu algengt það er. Í fyrstu höfðu menn tilhneigingu til að leita eftir því en eftir að samningamenn FBI efuðust um algengi þess dró úr þeirri tilhneigingu. Hugtakið hefur hins vegar náð almennri útbreiðslu og er oft ranglega notað.

Austurríska stúlkan Natascha Kampusch komst í leitirnar árið 2006 eftir að hafa verið haldið í átta ár í neðanjarðarklefa þar sem hún var misnotuð, svelt og nauðgað. Hún viðurkenndi að hún hefði grátið þegar hún frétti af dauða kvalara síns og sagði að hún hefði vaxið frá foreldrum sínum. Þetta fékk fólk til að velta vöngum yfir því hvort hún þjáðist af Stokkhólms-heilkenninu.

„Þegar manneskja hefur verið frelsuð gæti hún upplifað sig nánari fangara sínum en þeim sem voru fjölskylda og vinir. Ég myndi ekki kalla þetta Stokkhólms-heilkenni,“ segir Ochberg.

Sér ekki eftir bankaráninu

Olsson hefur haldið sig á beinu brautinni síðan honum var sleppt úr fangelsi 1980, unnið sem bílasölumaður í Svíþjóð og stundað búskap í Taílandi, þar sem hann bjó í 15 ár með taílenskri konu sem hann giftist fyrir 24 árum.

„Ég held ekki að ég myndi vilja taka ránið til baka því það er stór hluti af lífi mínu og margt hefur gerst í kjölfarið,“ segir hann en bætir því við að hann sjái þó eftir öllum þeim tíma sem hann dvaldi í fangelsi.

Tveir gíslanna heimsóttu hann í fangelsið.

Aðspurður að því hvort hann teldi að heilkennið væri í raun og veru til svaraði hann: „Hvað í skrambanum er heilkenni svo sem? Ég veit það ekki.“

Olsson hélt starfsmönnum bankans í hvelfingunni en lögregla tók þessa …
Olsson hélt starfsmönnum bankans í hvelfingunni en lögregla tók þessa mynd með því að láta myndavél síga niður gat á hvelfingunni. EGAN-Polisen
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka