Ekki hefur tekist að upplýsa hvað olli því að 23 ára gamall aðstoðarmaður breska listamannsins David Hockney drakk stíflueyði en lögregla hefur útilokað að um morð hafi verið að ræða.
Dominic Elliott var í mars fluttur af heimili listamannsins í Yorkshire á næsta sjúkrahús, þungt haldinn, og lést skömmu síðar.
Andlát Elliott vakti mikla athygli í Bretlandi, en hann hefur síðustu ár verið í þröngum hópi vina og aðstoðarmanna hins heimskunna listamanns, sem býr að mestu og starfar í Bridlington í Yorkshire, en á einnig heimili og vinnustofur í Los Angeles og London.
Ættingjar Elliotts sögðu hann hafa sótt samkvæmi kvöldið áður með „einhverjum listamannatýpum“ og töldu hann hafa neytt of mikils áfengis.
Drakk stíflueyði og áfengi, tók inn kókaín og e-töflur og reykti kannabis
Réttarmeinafræðileg rannsókn leiddi í ljós að Dominic Elliott drakk Knock-Out stíflueyði á heimili Hockneys og eins tók hann inn kókaín og fleiri eiturlyf. Að sögn yfirmanns lögreglurannsóknarinnar, Thomas Napier, er hins vegar óskiljanlegt hvers vegna Elliott drakk vökvann. „Það er enn ráðgáta hvað fékk þennan greinda unga mann til þess að drekka slíkt eiturefni,“ sagði Napier í dag.
Elliott sem var ágætur íþróttamaður, hafði tekið inn kókaín, e-töflur og svefnlyf áður en hann lést. Hann hafði einnig drukkið áfengi og reykt kannabis.
Hockney, sem er 76 ára, sagði fyrir dómi í dag að Elliott hefði átt í ástarsambandi við John Fitzherbert sem var áður elskhugi listamannsins.
Fitzherbert býr enn á heimili Hockney ásamt fleiri listamönnum. Hockney segir að hann hafi verið sofandi þegar þetta gerðist. Fitzherbert sagði við réttarhöldin að hann og Eilliot hefðu setið að sumbli og reykt kannabis umrætt kvöld. Elliot hefði einnig tekið inn kókaín.
Fitzherbert sagði við réttarhöldin að þeir hefðu verið komnir í rúmið þegar Elliot hefði skyndilega risið á fætur og hlaupið á dyr hlæjandi. Þeir hefðu síðan farið að sofa en Elliot hefði vakið hann síðar um nóttina og beðið Fitzherbert að keyra sig á sjúkrahús.
Hann segist hafa séð stíflueyðinn í vaskinum en ekki tengt hann við Elliot og ekið með hann á sjúkrahús í stað þess að óska eftir sjúkrabíl.
Í stíflueyðinum er brennisteinssýra og er dauði Elliotts rakinn til hennar enda gríðarlega eitruð. Fitzherbert sagði að Elliott hefði alltaf dansað á bjargbrúninni (Living on the edge). Þetta kvöld hefði hann verið reiður yfir því að hafa ekki verið með á mynd sem bandaríski ljósmyndarinn Annie Leibovitz tók á vinnustofu Hockneys fyrir Vanity Fair-tímaritið af listamanninum og starfsfólki hans.