Masande Ntshanga frá Suður-Afríku hlaut í kvöld New Voices Award, sem eru ný alþjóðleg verðlaun sem PEN samtökin hafa stofnað til. Verðlaunin voru veitt í Hörpu í kvöld, á 79. heimsþingi PEN samtakanna þar sem þátt taka um 200 höfundar frá 70 þjóðlöndum.
„Þetta eru merkileg og óvenjuleg verðlaun að því leyti að þetta er tilraun til að uppgötva höfunda framtíðarinnar. Allt eru þetta ungir höfundar sem hafa ekki gefið út bækur áður,“ sagði Sjón í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann tók fram að um 80 höfundar frá 40 löndum heims hafi verið tilnefndir til verðlaunanna.
Valið stóð á milli þriggja höfunda, Masande, José Pablo Salas frá Mexíkó og Claire Battershill frá Kanada. „Þetta eru frábærir ungir höfundar sem umbreyta persónulegri reynslu í grípandi frásögn samhliða því sem þeir miðla því sem gengur á í samfélögum þeirra,“ sagði Sjón.