Hafþór Júlíus Björnsson er forsíðufyrirsæta Monitor þessa vikuna. Hafþór hefur í nógu að snúast um þessar mundir, en hann er nú staddur í Rússlandi þar sem hann keppir á aflraunamótinu Strongman Championship. Hann lauk nýlega fyrri hlutanum á tökum á Game of Thrones, þar sem hann leikur illmennið The Mountain.
Fyrstu sex: 261188
Hjúskaparstaða: Í sambandi með Kolbrúnu Jónsdóttur
Það sem dregur mig fram úr á morgnana: Síðan í vor hef ég verið meira og minna erlendis og þá eru það morgunverðarhlaðborðin á hótelunum, en hér heima er það dóttir mín sem sér um að ég fái ekki bakverk vegna rúmlegu.
Mér líður best: Þegar ég er með fjölskyldunni og borða góðan mat.
Það leiðinlegasta sem ég geri: Þvo þvott enda fær mamma og þvottavélin hennar að finna fyrir því. (Takk mamma).
Nú ert þú að leika í Game of Thrones, hvernig kom það eiginlega til að þú fékkst svona stórt hlutverk upp í hendurnar?
Þetta var svolítið fyndið, þeir höfðu fyrst samband við mig í gegnum Facebook. Ég veit ekki hvernig þeir fundu mig þar eða hver sagði þeim frá mér fyrst, en þetta var bara stuttur póstur sem ég fékk. Það voru þarna einhverjar nokkrar línur og síðan var spurt „viltu leika í Game of Thrones?“ Ég hélt að þetta væri bara eitthvert rugl og pældi ekki meira í því.
Síðan voru þeir hérna heima í tökum fyrir stuttu og þá var aftur haft samband við mig. Þá fyrst fór þetta í gang og ég fór á fund, hitti leikstjórann og fullt af fólki og fór í einhverja smáprufu. Ég þurfti líka að fara á skylminganámskeið og þar sagði þjálfarinn strax að ég væri tilvalinn í þetta hlutverk. Ég var í réttri hæð og mjög þungur, með hnén í lagi og heilbrigður. Hann horfði á mig, brosti og sagði: „You just made me smile today boy“. Þarna áttaði ég mig á því að ég væri virkilega á leiðinni að leika í þessu, fékk stuttu seinna samning í hendurnar og þá var þetta afgreitt.
Annars vissi ég í rauninni ekkert hvað ég var að fara út í og var alveg temmilega stressaður. Ég hafði enga leikreynslu og fékk nánast engar upplýsingar, ég átti bara að fara út og leika í Game of Thrones!
Hvernig er hefðbundinn tökudagur?
Það er alltaf ræs klukkan fimm um morguninn, svo er maður sóttur um sexleytið og er í tökum í tólf tíma alveg til sex um kvöldið. Ég tók fjóra svona tökudaga í röð úti og þetta tók virkilega á. Sérstaklega fyrstu dagana, en þá var ég í armour og brynju með þungt sverð. Við vorum þarna í miklum hita og það skein á mann allan daginn í þessu öllu saman.
En það er náttúrlega vel hugsað um mann, það voru þrjár konur með blævængi á milljón að kæla mann niður, fólk með ávaxtabakka og svo var komið með mat á tveggja tíma fresti. Ég sagði að ég þyrfti að borða á tveggja tíma fresti, þannig að ég var bara spurður hvað ég vildi og því var reddað. Manni leið alveg eins og kóngi þarna stundum, lá í einhverjum risastórum stól á milli setta á meðan allir voru að hugsa um mann og láta manni líða sem best.
Hér sést aðeins brot úr viðtalinu við Hafþór Júlíus, viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.