Komst einungis inn vegna kyns?

Sigrún Dís Hauksdóttir
Sigrún Dís Hauksdóttir Morgunblaðið/Rósa Braga

Kynjakvótar í Gettu betur hafa verið eitt heitasta umræðuefni framhaldsskólaganganna síðustu daga. Monitor fór á stúfana og fékk tvær framhaldsskólastúlkur til að tjá sig um kynjakvótana, en þær eru á öndverðum meiði hvað varðar afstöðu til málsins.


Sigrún Dís Hauksdóttir er átján ára gamall nemandi í Verzlunarskóla Íslands. Hún situr í málfundafélagi skólans og er einnig í stýrihóp Gettu betur, og var þar fulltrúi eina skólans af fjórum sem hafnaði breytingartillögunni.


Samfélag okkar er enn að mörgu leyti karlasamfélag; karlar fá hærri laun, eru í meirihluta í stjórnum fyrirtækja og fleiri þingmenn eru karlar. Þetta er að breytast en margir telja að breytingin sé of hæg. Þess vegna eru notaðar sérstakar aðgerðir, til dæmis kynjakvóti, sem flýtir fyrir eðlilegum hlut kvenna í samfélaginu. Mér finnst rétt að beita kynjakvóta tímabundið til að flýta fyrir jafnri stöðu kynjanna, til dæmis hjá þeim sem stjórna landinu okkar. Ég tel að kynjakvóti eigi rétt á sér þar sem það á við. Að setja á kynjakvóta á keppnislið Gettu betur finnst mér ekki eiga rétt á sér. Slík aðgerð er niðrandi fyrir kvenkyns keppendur og ósanngjörn fyrir þann aðila sem er tekinn úr liðinu vegna kvótans. Auk þess finnst mér þetta vera óþolinmæði. Tímarnir eru að breytast.

Áður fyrr voru keppendur í Morfís í meirihluta strákar. Það breyttist með breyttu hugarfari. Skilaboð voru send í samfélagið að stelpur væru jafn sannfærandi og strákar. Það þurfti engan kynjakvóta til. Tímarnir eru að breytast.

Liðstjóri Gettu betur liðs okkar í Verzló er stúlka. Hún komst í þá stöðu af því að hún mætti í forprófið. Á næstu árum munu einhverjir varpa fram spurningunni: „Komst hún einungis inn í liðið því hún er stelpa?” Það er niðrandi fyrir kynsystur mínar sem komast inn í liðin á næstu árum að einhverjir muni telja það vera vegna kynjakvótans. Stelpa sem kemst í liðið af því að hún er hæfust vill ekki vera kölluð ,,kvótastelpan”.

Það er í umræðunni að spurningarnar höfði betur til stráka heldur en stelpna. Er eingöngu verið að spyrja um Grand Theft Auto, motorcross og enska boltann? Eru þetta ,,strákaspurningar”? Þarf að bæta við ,,stelpuspurningum”? Hvernig spurningar eru það? Ég veit ekki betur en að spurningarnar í keppninni dreifist niður í hefðbundna þekkingarflokka; sögu, landafræði, raungreinar,  bókmenntir, stjórnmál, íþróttir, listir, íslenska menningu og margt fleira. Eru þessir flokkar ekki þeir sömu og í skólum landsins þar sem stelpur eru í miklum meirihluta? Ég tel að munurinn liggi ekki í spurningunum heldur frekar almennum áhuga kynjanna á þátttöku.

Í háskólanum eru yfir 60% nemenda stelpur. Þær eru í meirihluta í öllum deildum nema verkfræðideild. Í forritunarkeppni framhaldsskólanna eru kvenkyns keppendur undir 10% þátttakenda. Er þessi öfgafulli munur eingöngu vegna þess að það er ,,strákastimpill” á verk- og tölvunarfræði eða einfaldlega vegna mismunandi áhugasviðs kynjanna? Hafa strákar ekki bara meiri áhuga á að taka þátt í Gettu betur en stelpur? Stelpur hafa mikinn áhuga á að taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna sem er ekki síðri áskorun, en þar er hlutfall kvenna um 2/3. Viljum við ekki hafa jafnt hlutfall flytjenda í Söngkeppni framhaldskólanna?

Ef fimm fremstu söngvarar skólans eru stúlkur ættu þær þá að víkja fyrir dreng sem er ekki jafn hæfur því árið á undan tók stúlka þátt í söngkeppninni?

Ef sjö strákar skora hæst á Gettu betur forprófinu, verður stelpa með áttundu hæstu einkunn hleypt inn í liðið, vegna þess að hún er kvenkyns. Stelpur vilja ekki komast í liðið af þessum forsendum og kynjakvótinn gæti fælt stelpur frá keppninni.

Mér finnst 10% launamismunur kynjanna, vera álíka ósanngjarn og að ef kennarar myndu lækka allar einkunnir kvenna í skólum um einn heilan. Val í Gettu betur liðið fer hins vegar fram á sanngjarnan hátt. Ef stúlku finnst ekki eftirsóknarvert að mæta í forprófið er hún einfaldlega ekki tilbúin að keppa í Gettu betur. Þeir sem fara yfir prófin hafa aldrei hitt nemendurna sem tóku þau, sem þýðir að yfirlesari prófanna getur engan veginn dæmt nemandann út frá neinu öðru en hæfni. Allir nemendurnir hafa jafna möguleika óháð þáttum sem þeir ráða engu um, svo sem kyni. Það er jafnrétti.

Í lögum er kynjakvóti hugsaður sem tímabundinn til að leiðrétta ójafnvægi kynjanna. Í Morfís lagaðist þessi hlutur án kynjakvóta, það er ekki langt síðan það gerðist. Stelpurnar sem eru þar í dag standa stoltar í púltinu enda komust þær þangað á eigin forsendum. Sýnum smá þolinmæði. Ef ójafnvægi kynjanna í Gettu betur er afleiðing karlasamfélagsins en ekki mismunandi áhugasviðs kynjanna hef ég fulla trú á því að stelpur muni sjást meira í keppninni á næstu árum án þess að kynjakvóta þurfi til. Tímarnir eru að breytast.

-Sigrún Dís Hauksdóttir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir