Lífsstílssíðan Trendnet.is er skipuð ellefu bloggurum sem allir hafa sín sérkenni. Síðan fagnaði árs afmæli sínu í síðustu viku og við það tækifæri kynnti Trendnet.is tvo nýja bloggara, þær Ásu Regins og Karen Lind. Stílinn langaði til að kynnast skvísunum betur og spurði þær því spjörunum úr.
Ása Regins
Uppáhalds..
Flík: Mr & Mrs Furs úlpan mín góða.
Matur: Pata Negra. Það er dýrasta hráskinka í heimi og ég skil hvers vegna. Færeyskt skerpikjöt og hvalspik er líka ofarlega á listanum en Færeyingar skilja það, ekki Íslendingar.
Borg/staður:Ísland, Ítalía og Grikkland. Get ekki gert upp á milli.
Kvikmynd: Shawshank Redemption
Bók: Kirkja Hafsins eftir Ildefonso Falcones.
Hver er Ása Regins og hvað er hún að gera í lífinu?
Íslensk stelpa sem býr á Ítalíu með eiginmanni og barni. Ég kem úr mjög samheldinni og stórri fjölskyldu sem hefur mótað mig mikið og hún á stóran þátt í hver ég er. Orðin bjartsýn, örlát og spontant lýsa mér örugglega ágætlega.
Hvað varð til þess að þú byrjaðir að blogga og hvað hefur þú verið lengi að?
Fyrir sjö árum kynntist ég Emil og fljótlega eftir það flutti ég með honum til suður Ítalíu, nánar tiltekið til Reggio Calabria. Amma og afi vildu fá að fylgjast með þessu suðræna ævintýri og því byrjaði ég að blogga fyrir þau. Á hverjum degi þegar þau mættu í vinnuna kíktu þau á síðuna mína og ef mig minnir rétt byrjuðu eða enduðu flestar færslurnar á kærri kveðju til ömmu og afa í Grindó. Að sjálfsögðu hafa þau nú bæst við stóran lesendahóp Trendnet.is.
Hvað bloggar þú helst um og hvert sækir þú innblástur?
Ég blogga um allt milli himins og jarðar en það verður þó að gleðja augað, vera sniðugt eða skemmtilegt og/eða til góðs, það eru svona grunnskilyrðin.
Átt þú þér uppáhalds bloggsíðu, að trendnet.is undanskilinni?
Já og hún heitir því merkilega nafnið "TheyAllHateUs.com". Ég mæli með henni.
Hvað er framundan hjá þér í haust/vetur?
Mitt stærsta verkefni er að ala upp tveggja ára son minn, sinna honum af alúð, fæða hann og klæða. Svo þegar tækifæri gefst læri ég ítölsku og skrifa um eitthvað skemmtilegt og deili með lesendum Trendnet.is. Einnig tek ég reglulega á móti gestum og sinni öðrum litlum verkefnum sem ég hef verið að taka að mér. Aðra hverja helgi mæti ég svo á Stadio Bentegodi og styð mitt lið og minn mann, Emil og knattspyrnuliðið Hellas Verona. Ef ég þekki mig síðan rétt mun ég líka eyða talsverðum tíma á veitinga og kaffihúsum Veronaborgar með skemmtilegu fólki, það eru góðar stundir sem mega ekki gleymast.