Safnar sérmerktum servíettum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fimmti yngsti þjóðarleiðtogi heims, rétt á eftir leiðtoganum mikla Kim Jong-un. Þessa vikuna tekur hann þátt í átaki Bleiku slaufunnar með ýmsu sprelli og er ófeiminn þegar kemur að því að styrkja góð málefni.

Nú hafa birst ýmsar skemmtilegar myndir af þér og Bjarna Ben saman og jafnvel talað um „brómans“ í því samhengi. Hvernig er sambandið hjá ykkur strákunum?

(Hlær) Jú, við náum mjög vel saman. Bjarni er mjög fínn maður og viðkunnanlegur. Það er rétt sem þú segir að það er búið að taka alveg ótal svona myndir og til rétt mynd við hvaða frétt sem er, svona til þess að ýta undir boðskapinn. Við eigum mjög gott samband þó við séum úr ólíkum flokkum og með ólíka sýn á ýmsa hluti. Hann er almennt bara virkilega góður gæji myndi ég segja.

 

Hvernig var æskan hjá þér? Í hvaða skóla gekkst þú?

Ég var í Ölduselsskóla og síðan í MR. Ég get varla reynt að ljúga því að ég hafi verið mikill ólátabelgur. Ég var frekar rólegur krakki og var heima með foreldrunum að horfa á Derrick jafnvel þegar vinirnir voru farnir út að skemmta sér. Ég var mikið í bókum og með vinum eitthvað að nördast en ekki í miklu fjöri kannski svona framan af.

Hvert var draumastarfið í æsku?

Móðir mín segir allavega að þegar ég var fimm ára hafi ég sagst ætla að verða forsætisráðherra. Síðar var ég hættur við það eins og kom fram en hef velt ýmsu fyrir mér í millitíðinni. Einhvern tímann langaði mig að verða byggingaverkfræðingur, síðan hugleiddi ég að verða sprengjufræðingur, eðlisfræðingur, hafði áhuga á stærðfræði o.s.frv. Síðan einhvern tímann þegar ég var reyndar kominn fast að þrítugu fylgdist ég með slökkviliðinu slökkva í húsi í Kópavogi og þá langaði mig að verða slökkviliðsmaður. Ég hef því haft áhuga á ýmsu, eins og sést.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Þar komum við aftur að fyrra vandamálinu, maður hefur dottið út úr ýmsu sem maður gerði áður. Áhugamálin eru afskaplega fjölbreytileg. Í tónlist get ég hlustað á mjög ólíka hluti, þó ég sé ekki beint „alæta á tónlist“ eins og margir segja. Mér finnst mismunandi tónlist mjög góð og alls kyns mismunandi tónlist líka mjög slæm. Ég get hlustað á allt frá Bing Crosby alveg að ýmsum gerðum af þungarokki. Mér hefur líka verið sagt að ég sé með „samkynhneigðan tónlistarsmekk“ vegna þess að ég hef gaman að ABBA, Petshop boys og alls konar 80‘s tónlist.

Hvað varðar önnur áhugamál eru þau líka mjög fjölbreytt. Ég hef t.d. brennandi áhuga á sögu og er líka mikill safnari. Það er reyndar mjög varasamt að tala um þessa hluti, en ég tók það einu sinni fram í viðtali að ég væri safnari og var þá spurður „já, hverju safnarðu?“. Ég svara því til að ég safni alls konar hlutum og hafi meira að segja hirt sérmerktar servíettur. Þá kom risastór fyrirsögn: „Safnar sérmerktum servíettum“ og síðan þá hefur fólk verið að gefa mér slíkar. Ég á því ágætis servíettusafn. 

Hér sést aðeins brot úr viðtali Monitor við Sigmund Davíð, viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir