Lögregla rannsakar nú hvort bandaríski kvikmyndaleikarinnar Paul Walker hafi hugsanlega verið þátttakandi í kappakstri þegar hann lést í bílslysi um helgina fertugur að aldri ásamt félaga sínum Roger Rodas sem var þekktur kappakstursbílstjóri.
Fram kemur á fréttavef bandaríska dagblaðsins Daily News að lögreglan hafi fengið ábendingu um að önnur bifreið hafi hugsanlega verið viðriðin slysið en talið sé að hraðaakstur hafi valdið slysinu. Lögreglan leiti nú að vitnum sem geti staðfest þetta sem og myndabandsupptöku sem talið er að hafi verið gerð af kappakstrinum. Ennfremur segir að vegurinn þar sem slysið varð sé vinsæll staður fyrir kappakstur.
Þá segir að hugsanlegt sé einnig talið að bilun hafi orðið í bifreiðinni sem Walker og Rodas voru í skömmu áður en slysið varð. Til marks um það hefur verið bent á að ekki hafi fundist bremsuför á vettvangi eða annað sem bendi til þess að bílstjórinn hafi misst stjórn á bifreiðinni. Þá hafi eldurinn sem kom upp í bifreiðinni átt upptök sín í vélinni.