Víkingamálmbandið Skálmöld hefur sett inn á myndbandavefinn Youtube upptöku af tónleikum bandsins með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu sem fram fóru á föstudag fyrir viku. Um er að ræða upptöku af laginu Hel og hefur myndbandið þegar fengið mikla spilun.
Myndbandið má sjá hér að neðan og einnig pistill Orra Páls Ormarssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, um tónleikana.
Svo er annað eftir: Tónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og helþéttum kór í kjaftfullri Eldborg. Það yrði málmmessa áratugarins!“
Með þessum orðum lauk höfundur þessa pistils umsögn sinni um aðra breiðskífu víkingamálmbandsins Skálmaldar, Börn Loka, hér í blaðinu fyrir réttu ári. Ef til vill var það óskhyggja en alltént upplýst óskhyggja því ég var sannarlega farinn að sjá þetta fyrir mér á þeim tímapunkti. Börn Loka, eins og Baldur á undan henni, hrópaði á Sinfóníuhljómsveit Íslands, einhvern öflugasta túlkanda norræna tónverka í þessum heimi. Um það eru húsbændur í Hörpunni mér greinilega sammála því fyrir og um helgina varð þessi djarfi gjörningur að veruleika. Ekki bara einu sinni, heldur þrisvar fyrir smekkfullri Eldborg. Raunar fimm sinnum séu skólatónleikarnir að morgni fimmtudagsins taldir með. Geri aðrir betur!
Spennan var að byggjast upp alla vikuna og eftir að hafa litið inn á æfingu að morgni miðvikudags varð ég sannast sagna viðþolslaus. Föstudagskvöldið rann loksins upp og til að gera langa sögu stutta fór uppákoman langt fram úr væntingum. Og voru þær ekki litlar.
Ekki byrjaði það illa. Þegar ég mætti til leiks ultu nokkrir málmbræður út úr bíl fyrir aftan mig.
„Fyrirgefðu, lagsi,“ sagði einn. „Ertu að fara á Skálmöld?“
Það hélt ég nú.
„Helvíti fínt, maður. Við vorum nefnilega ekki vissir um að við værum á réttum stað. Erum að koma beint úr sveitinni.“
Eftir þetta gat kvöldið ekki klikkað. Skálmöld er auðvitað hljómsveit allra landsmanna og margir hafa eflaust komið langt að.
Stemningin í salnum var áþreifanleg og strax þegar Gunnar Ben gekk fram fyrir skjöldu til að kyrja Heima gerðist eitthvað sem erfitt er að lýsa með orðum. Leikgleði Skálmaldar er með miklum ólíkindum og smitaði hratt út frá sér. Á góðu kvöldi eru sexmenningarnir eins og ryksuga, soga allt að sér. Í þessu tilviki Sinfóníuhljómsveit Íslands, Karlakór Reykjavíkur, Hymnodiu, Skólakór Kársnesskóla og tvö þúsund gesti í Eldborg. Öll urðum við eitt.
Útsetjarinn, Haraldur V. Sveinbjörnsson, hafði lofað að vinna með tónlistinni en ekki á móti henni og stóð við hvert orð. Ekki var gott að segja hvar Skálmöld endaði og Sinfónían og kórarnir tóku við. Mögulega hefur Haraldur lært af mistökum Michaels heitins Kamens en útsetningar hans fyrir San Francisco-sinfóníuna á sínum tíma voru sem kunnugt er fleygur í síðu Metallica. Taugaveiklað brass og tilviljanakenndar strófur.
Því var ekki að heilsa hér og frábært að sjá hvað Sinfó skemmti sér vel andspænis þessum óvenjulegu gestum sem hikuðu ekki við að klakka, stappa og standa upp í miðjum klíðum. Það þykir óheflað á venjulegum sinfóníutónleikum. En það var ekkert venjulegt við þessa tónleika.
Engir nutu sín betur en Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari, sem rak hornin óspart framan í gesti, og öðlingurinn Bernharður Wilkinson sem tókst hreinlega á loft með sprotann þegar mest var undir. Velkominn í Hið íslenzka málmvísindafélag, Benni. Djöfull myndi Bryndís Halla Gylfadóttir líka taka sig vel út í einhverju málmbandinu.
Strákarnir í Skólakór Kársnesskóla feyktu flösu eins og þeir ættu lífið að leysa meðan þeirra naut við. Eðli málsins samkvæmt var sá kór sendur heim í hálfleik – enda kominn háttatími. Karlakór Reykjavíkur og Hymnodia rokkuðu feitt, eins og þeir hefðu aldrei gert annað. Fagmenn fram í fingurgóma.
Það er tómt mál að tala um hápunkta – þeir voru svo margir. Árás kveikti strax í liðinu, Narfi, Sleipnir, Loki. Hann var geðveikur. Svo við tölum bara íslensku. Svei mér ef Kvaðning er ekki komin í hóp bestu málmverka sem ég hef heyrt um dagana. Nútímaklassík.
Ekki brugðust gestirnir. Enginn (þ)rass sat kyrr þegar Addi í Sólstöfum, einn besti sviðsmaður landsins, birtist skyndilega eins og riddari frá miðöldum. Eftir að hafa kveðist á við Björgvin um stund vék hann af velli og „hæ-fævaði“ eina stelpuna í skólakórnum á leiðinni út. Þá leið mér eins og ég væri staddur í ljósaskiptunum.
Allt er greinilega leyfilegt á öldum skálmsins.
Málmdrottningin sjálf, Edda Tegeder, var engu síðri. Magnað að fylgjast með eftirvæntingunni í salnum þegar Hel var tónuð niður og hyllti undir innkomu Eddu. „Hvar er hún?“, „hvenær kemur hún?“ Allir vissu hvað var í vændum. Það var engu líkara en James Hetfield eða Max Cavalera væru á svæðinu.
Ekki skal gert upp á milli þeirra Skálmeldinga en Baldur og Jón Geir fá prik fyrir að mæta berir að ofan á svið. Ekki allir sem „púlla“ það með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ætli það hafi verið ástæðan fyrir öllum konunum í salnum? Man ekki annað eins á málmtónleikum. Ráðsettar húsmæður og húðflúraðar goþgellur í bland.
Sú var tíðin að Eiríkur Hauksson hraktist úr landi til að syngja þungarokk. Það þarf varla nokkur maður að gera lengur. Þökk sé Skálmöld. Hún hefur ekki aðeins kynt bál í gömlum málmhjörtum heldur gert hálfa þjóðina að þungarokkurum. Er það vel.
Sigrún Eðvaldsdóttir ræddi um það á síðum þessa blaðs fyrir helgi að hún væri orðin aðdáandi og reiðubúin að ferðast um heiminn með Skálmöld. Mögulega sagt í hálfkæringi. En hver veit? Gjörningurinn í Eldborg var alltént tónlistarviðburður á heimsmælikvarða. Boðlegur hvar sem er.
Ævintýri þessa kostulega „kaffiklúbbs“, eins og Skálmeldingar lýsa sér sjálfir, er löngu orðið stjórnlaust. Hver veit hvað gerist næst? Látum þetta þó duga í bili og ljúkum þessum pistli (hér um bil) eins og við hófum hann.
Svo er annað búið: Tónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og helþéttum kór í kjaftfullri Eldborg. Það VAR málmmessa áratugarins!“