Hringdi í „Kronkron manninn“ á aðfangadag

Hulda Hvönn átti miður skemmtilega reynslu fyrstu jólin sín sem ung móðir en þó er fátt svo slæmt að ekki megi hlæja yfir því síðar.

Jólin, hátíð ljóss og friðar, þegar fólk kemur saman og samgleðst, skiptist á gjöfum og borðar góðan mat, á glaða stund, brosir, syngur og hlær. Þetta er ímyndin sem ég hef af jólunum, og margir aðrir ímynda ég mér, en oftast virðist raunin vera önnur. Fólk þeysist milli búða í allsherjar jólastressi í leit að réttu gjöfinni, réttu fötunum, rétta matnum, áhyggjurnar þjaka það, peningaleysið sligar það og allir virðast vera korter í taugaáfall.

Ég vil persónulega halda það að ég sé ekkert sérstaklega stressuð manneskja (sem sést kannski best á því að ég er að skrifa pistil og það eru innan við 48 klukkustundir í lokaprófið mitt) en ég lenti þó í því síðustu jól að láta jólastressið ná óþarflega miklum tökum á mér. Megintilgangur þessa pistils er sú einfalda von að við lesturinn geti fólk ef til vill losað aðeins um stressið, brosað aðeins og jafnvel lært af mistökunum mínum…

Þetta voru fyrstu jólin mín sem móðir, ég var 18 ára gift frú og átti mér þann draum að allt yrði brakandi fínt og fullkomið. Mig langaði að hafa þetta eins og í bíómyndunum: allt væri vel skreytt, allt bragðaðist vel (en það var reyndar ekki mín deild) og svo, auðvitað, að allir litu vel út, þar á meðal ég. Ég er svo heppin að eiga afa sem ég held mikið upp á og hann sömuleiðis upp á mig. Hefðin er sú að hann taki barnabörnin með sér að versla og lofi þeim að velja sér jólagjöf að þeirra skapi.
Eftir að hann hafði lokið margra mánaða dvöl í Japan við rannsóknir á þarlendri eldfjallaösku kom hann heim fyrir jólin og lá leið okkar í fataverslunina Kronkron þar sem ég og eitt ákveðið, ónefnt skópar höfðum fellt saman hugi. Til að gera langa sögu stutta þá fór það þannig að þegar ég rétti afgreiðslumanninum kortið mitt til þess að greiða minn helming í skónum þá hafði sá gamli greitt þá til fulls og ég held að þetta sé sú stund sem kemst hvað næst því að jafnast á við fæðingu dóttur minnar hvað hamingju varðar. Ég var sem sagt alsæl.

Stundin rann upp
Líkt og venjan er keyrði hann afi svo pakkann til mín á aðfangadag, fékk sér kakó og kökur en hélt svo sína leið. Dagurinn leið, íbúðin fylltist af lokkandi angan og allir fóru í sparidressið (nema húsbóndinn sem af einhverjum ástæðum ákvað þá að vera í Hawaii-skyrtu). Klukkan korter í sex gat ég ómögulega beðið lengur og gríp pakkann frá afa undan jólatrénu. Af mikilli áfergju reif ég pappírinn utan af og himinlifandi opna skókassann og… einn skór? Ég tók hann gáttuð upp úr kassanum og sturtaði pappírsinnvolsinu út. Ekkert. Einn skór? Ég kíkti aftur og fann hvernig kökkur myndaðist í hálsinum og, eins skömmustulega það kann að hljóma, þá þurfti ég mikið að halda aftur af mér til þess að gráta ekki eins og lítið barn. Ég hafði beðið í margar vikur eftir að opna þennan pakka, enn lengur hafði mig dreymt um þessa skó og í þokkabót hafði aumingja, aldraður afi minn, fyrir upphæð sem ég kæri mig ekki einu sinni um að nefna, fengið einn skó!

Reið og sár æddi ég að tölvunni, hrópandi hástöfum á allt og alla: „Einn skór! Einn skór!“ veifandi stökum hægriskó út í loftið. Ég fór beinustu leið inn á vefsíðu símaskrárinnar og fletti upp símanúmeri hjá einum stofnenda Kronkron. Klukkan tíu mínútur í sex á aðfangadegi hefur síminn þeirra hringt og kona í ansi annarlegu ástandi beðið vinsamlegast um að fá að tala við „Kronkron-manninn“. Ljúfasti maður kemur þá í símann og með ekkasogi útskýri ég raunir mínar fyrir honum. Miður sín þá tekur hann niður hjá mér helstu upplýsingar um skóna, nafn og heimilisfang. Einungis hálftíma síðar, klukkan 18.20 á aðfangadegi, stendur þessi ágæti maður svo á dyrapallinum mínum með nýtt skópar og með mörgum þökkum og afsökunarbeiðnum gef ég honum minn staka skó í staðinn en set mitt heila par á fæturnar á mér. Hann hafði bjargað jólunum!

Matur var snæddur án frekari áfalla, barnið svæft og gjafir opnaðar. Upp úr einum pakkanum til húsbóndans kemur svo kassi sem stendur skýrum stöfum á „Philips portable radio“. Nokkuð sáttur með sitt opnar hann kassann og upp úr kemur… Jú, einn aumur og einmana vinstriskór. Ég horfði skilningsvana á skóinn þangað til ég mundi það allt í einu, á leiðinni úr búðinni með honum afa spyr hann mig: „Hvað heldurðu svo að eiginmanninn langi í?“ og ég svara (í gríni og hálfgerðu hugsunarleysi): „Iss, afi, þetta er alveg nóg fyrir okkur bæði, við deilum bara skónum.“ Á litlum miða inni í skónum stóð svo: „Þú lánar kannski frúnni hann við tækifæri.“
Skömmustulega tek ég við skónum og horfi hugsi á hann. Sjaldan eða aldrei hefur mér liðið svona illa… Ég hafði, af engri ástæðu, ræst aumingjans „Kronkron-manninn“ út frá fjölskyldu sinni rétt áður en jólin voru hringd inn til þess að laga meint afgreiðslumistök starfsfólks hans sem voru svo ekkert annað en óþolinmæðin og hugsunarleysið í mér.

27. desember skakklappaðist ég inn í Kronkron og læddist meðfram veggjum inn í mátunarklefann þar sem hinn staki skór var yfirgefinn án frekari útskýringa. Af blygðunarkennd og skömm keypti ég mér kjól sem skaðabót fyrir ónæðinu.

Ég er ósjaldan látin segja þessa sögu í fjölskylduboðum og hlæja flestir mikið (að mér, ekki með mér). Ég hafði látið stressið hlaupa rækilega með mig í gönur og án þess einu sinni að setjast niður og hugsa málið í gegn, hafði ég gripið til drastískustu aðgerða sem höfðu ekki einungis áhrif á jólin mín heldur líka annarra.

Punkturinn hjá mér er líklegast þessi; reynum að gera ekki of mikið úr jólunum. Jólin koma hvort sem sósan er úr pakka eða rykið ennþá bak við sófann, þótt gólflistarnir séu skítugir og jafnvel þótt þú sért bara með annan skóinn. Reynum að taka því rólega og ef þér tekst það ekki, í guðanna bænum, ekki láta það bitna á afgreiðslufólki, jólin eru nú þegar nógu erfiður tími fyrir þau.

Hulda Hvönn Kristinsdóttir
monitor@monitor.is 

Hulda Hvönn þurfti að halda aftur að tárunum þegar hún …
Hulda Hvönn þurfti að halda aftur að tárunum þegar hún opnaði jólapakkann frá afa. Morgunblaðið/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitthvað sem einu sinni var fullnægjandi umbun virðast hreinir smámunir núna. Eyddu ekki tímanum í volæði heldur taktu til hendinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kathryn Hughes
4
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitthvað sem einu sinni var fullnægjandi umbun virðast hreinir smámunir núna. Eyddu ekki tímanum í volæði heldur taktu til hendinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kathryn Hughes
4
Torill Thorup