Flestir eru líklega sammála um það að betra sé að umgangast einstaklinga sem lykta vel heldur en þá sem fnykur er af. Það ætti því að koma mörgum á óvart að samkvæmt nýrri belgískri rannsókn getur óþefur haft ýmsa kosti í för með sér. Rannsóknin var gerð við KU Leuven-háskólann í Belgíu og leiddi í ljós að þeir sem lykta illa finna almennt fyrir meiri vinsemd og samúð samborgara sinna heldur en þeir sem ekki er fnykur af. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk vorkennir hinum illa lyktandi og finnur af einhverjum ástæðum til með þeim.
Í rannsókninni áttu þátttakendur m.a. að lykta af tveimur gerðum bola, annars vegar bolum sem lyktuðu af svita, bjór og táfýlu og hins vegar nýþvegnum bolum. Þeir áttu síðan að ímynda sér hvernig eigandi bolsins væri byggt á lyktinni, en í tilfellum þeirra illa lyktandi komu gjarnan fram tilfinningar eins og samúð og vorkunn. Einnig var þátttakendum úthlutað gjafakortum í kvikmyndahús sem þeir áttu að gefa ókunnugu fólki í kringum sig, en nánast allir gáfu frekar illa þefjandi samborgara kort heldur en snyrtilegum.
Af þessu leiðir að ekki er öll nótt úti fyrir skunka í mannslíki, og Smelly Kelly í laginu hér að neðan á enn möguleika.