Umsjónarmenn útvarpsþáttarins Virkra morgna á Ríkisútvarpinu virðast hörundssárir, ef marka má viðbrögð þeirra í opnum símatíma í morgun. Kona ein gagnrýndi þá framgöngu Andra Freys Viðarssonar og Guðrúnar Dísar Emilsdóttur í útsendingunni. „Af hverju skiptiru þá ekki um stöð?“ spurði Andri Freyr þá og fékk það svar að hún ætlaði sér að gera það.
Til umræðu var svokallað hjónablót á Bolungarvík en það er Þorrablót sem eingöngu er ætlað hjónum. Andri Freyr taldi þá upp nokkra einstaklinga sem eiga það bæði sameiginlegt að vera þekktir á Íslandi og einhleypir. „Ætlar þú að reyna segja mér það, Guðrún Dís Emilsdóttir, að Sigríður Thorlacius [söngkona] megi ekki fara á Þorrablótið í Bolungarvík?“ spurði Andri Freyr og svaraði Guðrún Dís því til að Sigríður Thorlacius megi ekki einu sinni syngja á Þorrablótinu.
Í kjölfarið var opnað fyrir símann og fóru samskiptin við fyrsta viðmælandann svona fram:
Andri Freyr: „Góðan daginn.“
Ónafngreind kona: „Í guðanna bænum hættið þessu.“
Guðrún Dís: „Ha!?“
Andri Freyr: „Ert þú að hringja frá Bolungarvík?“
Ónafngreind kona: „Nei.
Guðrún Dís: „Finnst þér þetta í lagi?“
Ónafngreind kona: „Nei, mér finnst ekki í lagi hvernig þið látið.“
Andri Freyr: „Af hverju skiptiru þá ekki um stöð?“
Ónafngreind kona: „Já.“
Konan sleit við það sambandinu.
Guðrún Dís: „Já, hún ætlar að gera það þessi.“