Nýjustu fregnir herma að söngkonan Madonna, sem er 55 ára gömul, sé komin með nýjan kærasta.
Hún er ekki þekkt fyrir annað en að vera með mönnum sem eru töluvert yngri en hún. Það ætti því ekki að koma á óvart að sá nýi er 26 ára gamall.
Madonna og Timor Steffens hittust síðasta vor þegar hann tók þátt í verkefni fyrir Madonnu, en hann starfar sem dansari.
Samkvæmt heimildum Daily Mail hittust þau í heimabæ Steffens, Rotterdam í Hollandi, í síðustu viku.
Þau eyddu saman nótt á lúxussnekkju sem áður var í eigu óperusöngkonunnar Mariu Callas en hefur verið breytt í lúxusgistingu með morgunverði.
Willem Post, eigandi snekkjunnar, sagði við hollenska fjölmiðla að söngkonan hefði komið með gest í morgunverðinn.
„Ljóshærð kona í dýrum náttslopp og ungur maður settust við eitt morgunverðaborðið. Síðar áttaði ég mig á því að þetta væri Madonna. Ég lét eins og ég þekkti hana ekki. Ég talaði aðeins stuttlega við hana. Henni fannst Rotterdam falleg borg með einstökum arkitektúr og hún var áhugasöm um sögu snekkjunnar,“ sagði Post.
Heimamenn sáu síðar skötuhjúin snæða saman á japönskum veitingastað í borginni.