Hulda Hvönn Kristinsdóttir lét barneignir á unga aldri ekki hindra sig frá námi en nú hefur kerfið sem hún reiddi sig á brugðist henni. Hún skrifar um raunir sínar í nýjasta tölublað Monitor.
Ég er laganemi við Háskóla Íslands og eins og allir aðrir þurfti ég að taka próf úr almennri lögfræði. Mér hlaust sá vafasami heiður að fá að vera ein af þeim 71% sem náðu ekki faginu (og var þó yfir meðaleinkunn!). Margir þeirra sem náðu voru að þreyta prófið í annað eða þriðja sinn. Ætti það að segja sitthvað um erfiðleikastig þessa ágæta prófs.
Ég á lítið barn sem var að byrja á leikskóla og var því oft veikt þennan veturinn, stundum heilu vikurnar. Ómögulegt þótti að setja fyrirlestrana á stafrænu formi inn á innranet skólans, þótt það sé gert í mörgum öðrum fögum við háskólann. Þær vikur sem litla dóttir mín lá því lasin heima fór því allur fróðleikur fyrirlestranna fram hjá mér með öllu (en allt sem er sagt þar er jú til prófs). Heimapróf var haldið einn laugardaginn og tvö í viðbót verða á komandi laugardögum þennan vetur, en þá er leikskólinn vitaskuld lokaður. Eins mætti benda á að oft voru tímar á síðustu önn til klukkan að ganga fimm en leikskólanum sjálfum er lokað á slaginu fjögur. Með öðrum orðum: viðmót til nemenda með börn (þá sérstaklega einstæðra foreldra) er arfaslakt. Þetta, ásamt svo mörgu öðru, tók sinn toll af prófundirbúningnum. Það er því sorglegt frá að segja að ég, líkt og svo margir aðrir námsmenn, stólaði algerlega á framfærslulán Lánastofnunar íslenskra námsmanna (LÍN).
Áhættufjárfesting í lögfræði
LÍN gerir kröfu um námsframvindu. Standist nemandi ekki ákveðinn einingafjölda borgar LÍN ekki námslánið út, sem verður þá að bankaláni viðkomandi námsmanns. Bankinn getur krafist tafarlausrar borgunar eða niðurgreiðslu láns með mjög skömmum afborgunartíma. Kúrsinn almenn lögfræði er 18 einingar, s.s. bróðurpartur allra eininga sem teknar eru yfir fyrstu önnina. Fallirðu í honum, fellurðu í öllu, ekki aðeins á önninni heldur neitar einnig LÍN að borga lánið þitt og það sem meira er þá krefst leikskólinn einnig lágmarks námsframvindu. Það má næstum því segja að það sé áhættufjárfesting að ætla sér að fara í lögfræði á námslánum með barn. Ég sótti fund til námsráðgjafa sem hlýddu á mig og þau vandamál sem fylgdu fallinu í almennri lögfræði. Við lok fundarins var mér bent á að leita á náðir Mæðrarstyrksnefndar með matarúthlutanir og annarra góðgerðasamtaka. Aðrar lausnir voru nefnilega ekki auðsjáanlegar…
Lestu grein Huldu Hvannar í heild sinni í nýjasta tölublaði Monitor.